Músíkmeðferð fyrir börn og ungmenni

Fréttir

Núverið undirrituðu Hafnarfjarðarbær og Hljóma músíkmeðferð samstarfssamning um músíkmeðferð fyrir börn og ungmenni í Hafnarfirði. Hljóma, undir stjórn Ingu Bjarkar Ingadóttur, veitir músíkmeðferð fyrir börn og ungmenni með margvíslegan vanda, svo sem andlega eða líkamlega fötlun, geðrænan vanda, áföll, félagslegar aðstæður og tilfinningalegan vanda.

Músíkmeðferð fyrir börn og ungmenni með margvíslegan vanda

Núverið undirrituðu Hafnarfjarðarbær og Hljóma músíkmeðferð samstarfssamning um músíkmeðferð fyrir börn og ungmenni í Hafnarfirði. Hljóma, undir stjórn Ingu Bjarkar Ingadóttur, veitir músíkmeðferð fyrir börn og ungmenni með margvíslegan vanda, svo sem andlega eða líkamlega fötlun, geðrænan vanda, áföll, félagslegar aðstæður og tilfinningalegan vanda.


Þessi tæplega fimm ára drengur er meðal nemenda Ingu Bjarkar. Ljósmynd: Olga Björt Þórðardóttir.

Nýsköpun í þróun meðferða fyrir einstakan og fjölbreyttan hóp skjólstæðinga

Í Hljómu fá einstaklingar tækifæri til að nálgast og njóta tónlistar með öllum sínum eflandi eiginleikum á eigin forsendum. Hljómu er að finna í fallegu svörtu timburhúsi við Austurgötu 38 í Hafnarfirði og er þar aðstaða til músikmeðferðar og tónlistarkennslu fyrir einstaklinga og hópa með góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Eigandi Hljómu, Inga Björk Ingadóttir, nam músíkmeðferð við Musiktherapeutische Arbeitsstätte í Berlín á árunum 2001 – 2006 og í kjölfarið starfaði hún við músíkmeðferð og sértæka tónlistarkennslu í Þýskalandi og Austurríki á hinum ýmsu stofnunum, bæði á heilbrigðis – og uppeldissviði. Þar vann hún meðal annars með börnum með sérþarfir, á sjúkrahúsi sérhæfðu í krabbameinslækningum við líknandi meðferð og með fjölfötluðum einstaklingum.


Hljóðfærakostur og aðstaða í Hljómu er í stöðugri uppbyggingu. Auk hefðbundinna hljóðfæra er þar að finna fjölbreytt safn hljóðfæra sem Inga Björk hefur eignast á starfsferli sínum erlendis og hér heima, sérsmíðað sjálf og látið sérsmíða fyrir Hljómu. Þetta eru m.a. hljóðfæri sérsniðin að þörfum ólíkra skjólstæðinga með mismunandi áskoranir. Ljósmynd: Olga Björt Þórðardóttir

Hljóma er einstakur staður í hjarta Hafnarfjarðar

Frá árinu 2011 hefur Inga Björk starfað á Íslandi við músíkmeðferð og tónlistarkennslu og árið 2014 stofnaði Inga Hljómu. Hún hefur hin síðustu ár lagt mikla áherslu á að færa tónlist og tækifæri til þeirra sem þurfa aðlagaða nálgun og kennslu og vinnur í gegnum fyrirtæki sitt, bæði á staðnum og heimilum. Hún vinnur m.a. með börnum og ungmennum með ýmis konar áskoranir og einnig fullorðnum með heilabilun auk þess að sinna nýsköpun í tónlistarkennslu allra yngsta fólksins. Ásamt starfi sínu í Hljómu sinnir Inga Björk sértækri tónlistarkennslu og ráðgjöf meðal annars í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Samstarfsamningur milli Hljómu og Hafnarfjarðarbæjar er tilraunaverkefni til eins árs með möguleika á framlengingu og áframhaldandi farsælu og góðu samstarfi til frambúðar.


Útsýnið úr glugga Hljómu er ævintýri líkast. Ljósmynd: Olga Björt Þórðardóttir

Ábendingagátt