Neyðarkallinn 2025 er mættur í Hafnarfjörðinn

Fréttir

Valdimar Víðisson bæjarstjóri tók á móti hafnfirska Neyðarkallinum í dag. Hafnarfjarðarbær styrkir Björgunarsveit Hafnarfjarðar með kaupum á Neyðarkallinum.

Neyðarkall sem við heyrum öll!  

Hafnarfjarðarbær styrkir Björgunarsveit Hafnarfjarðar með kaupum á Neyðarkallinum. Neyðarkallinn í ár er straumvatnsbjörgunarmaður, til minningar um Sigurð Kristófer McQuillan Óskarsson sem lést á björgunaræfingu í fyrra.

Hafnarfjarðarbær er stoltur af því að eiga  starfsfólk innan sinna raða sem vinnur óeigingjarnt og ötult starf í þágu björgunarsveitanna á Íslandi. 

Valdimar Víðisson bæjarstjóri tók á móti hafnfirska neyðarkallinum í dag.  Sala á Neyðarkalli fer fram dagana5. – 9. nóvember 2025.

Neyðarkallinn kominn í hús og í hendur bæjarstjóra.

Árlegt fjáröflunarátak 

Neyðarkallinn er söfnunarátak sem allar björgunarsveitir landsins taka þátt í og skilar um fjórðungi allra tekna sveitanna. Almenningur má eiga von á því að sjá fólk í björgunarsveitargöllum á öllum helstu stöðum.  

Desembermánuður er mesti annatími björgunarsveitanna því þá eiga sér stað stærstu fjáraflanirnar, auk venjulegrar starfsemi og útkalla sem gera sjaldan boð á undan sér.  

Neyðarkall í 20 ár 

Neyðarkall björgunarsveitanna á sér langa sögu. Átakið hófst 2006 og er því um að ræða 20. skipti sem björgunarsveitirnar bjóða almenningi að styðja starf þeirra með því að kaupa Neyðarkall.  

Hagnaður af sölunni rennur til björgunarsveita og slysavarnadeilda og er hann notaður til að efla og styrkja starfið.  

Nánar á síðu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Hafnarfjarðarbær hvetur ykkur öll til að fjárfesta í einum neyðarkalli og styrkja þarft málefni. 

Ábendingagátt