Níu íbúðir bætast við félagslegt húsnæðiskerfi bæjarins

Fréttir

Framkvæmdir við uppbyggingu á 148 íbúðum Bjargs íbúðafélags í þremur fjölbýlishúsum við Nónhamar og Hringhamar í Hamranesi í Hafnarfirði ganga vel. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar til búsetu 1. janúar 2023 og þær síðustu 1. september 2023. Af þessum 148 íbúðum munu 9 bætast við félagslegt húsnæðiskerfi Hafnarfjarðarbæjar og hefur þegar verið gengið frá húsaleigusamningum milli Bjargs og Hafnarfjarðarbæjar á tveimur íbúðum.

Skrifað undir samning um fyrstu íbúðirnar í Hamranesi

Framkvæmdir við uppbyggingu á 148 íbúðum Bjargs íbúðafélags í þremur fjölbýlishúsum við Nónhamar og Hringhamar í Hamranesi í Hafnarfirði ganga vel. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar til búsetu 1. janúar 2023 og þær síðustu 1. september 2023. Af þessum 148 íbúðum munu 9 bætast við félagslegt húsnæðiskerfi Hafnarfjarðarbæjar og hefur þegar verið gengið frá húsaleigusamningum milli Bjargs og Hafnarfjarðarbæjar á tveimur íbúðum. Gert er ráð fyrir að þessum íbúðum Hafnarfjarðarbæjar verði úthlutað upp úr miðjum desember og að nýir íbúar geti flutt inn í byrjun janúar. Í júní, júlí og september 2023 verða síðan hinar sjö íbúðirnar afhentar bæjarfélaginu. Þessi fjölgun inn í félagslega kerfi Hafnarfjarðarbæjar er sú mesta sem orðið hefur á einu ári í langan tíma og munar verulega um þá viðbót.


Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs skrifuðu í vikulok undir húsaleigusamning um fyrstu tvær íbúðirnar í Hamranesi sem Hafnarfjarðarbær fær í félagslegt húsnæðiskerfi bæjarins. Hér með Selmu Unnsteinsdóttur verkefnastjóra hjá Bjargi, Valdimari Víðissyni formanni fjölskylduráðs Hafnarfjarðar og Sigurði Haraldssyni sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs.


Hús Bjargs íbúðafélags við Nónhamar rís hratt líkt og hverfið í heild sinni. Fyrstu tvær íbúðirnar eru í þessu húsi.

Ein mesta uppbygging Bjargs

Uppbygging Bjargs íbúðafélags í Hamranesi byggir á samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ á grundvelli laga um almennar íbúðir en Hafnarfjarðarbær lagði til 12% af stofnvirði íbúðanna eða um 550 milljónir króna. Frá upphafi var gert ráð fyrir að níu íbúðir í húsunum myndu koma í félagslega húsnæðiskerfi bæjarins. Þessar 148 íbúðir Bjargs í Hamranesi bætast við þær rúmlega 700 íbúðir sem þegar eru í eigu og útleigu á vegum Bjargs á nokkrum stöðum í landinu og er uppbyggingin í Hafnarfirði ein af stærri uppbyggingum Bjargs íbúðafélags frá stofnun þess. Bjarg er sjálfseignarstofnun sem rekin er án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd og er opið fyrir umsóknir um íbúðirnar á vef Bjargs.

Ábendingagátt