Njótum aðventunnar í hlýlega og heillandi jólabænum

Fréttir

Aðventukveðja frá bæjarstjóra. Jólaljósin mild og fögur eru farin að lýsa upp tilveruna í Hafnarfirði og við öll að komast í sannkallað hátíðarskap. Jólabærinn stendur undir nafni og skín skærar en nokkru sinni. Hafnarfjörður hefur á undanförnum árum ,,slegið í gegn“ sem jólabær, þar sem fallega skreytt jólaþorpið og jólahúsin, skemmtilegar sérverslanir og fjölbreyttir veitingastaðir, menningarhúsin og nú síðast Hellisgerði í jólabúningi, hefur laðað gesti að alls staðar frá. Hlýleiki og vinalegt andrúmsloft hefur mikið aðdráttarafl og á þessum tíma árs er gott að leita í notalega og afslappaða stemningu eins og við höfum náð að skapa hér í Hafnarfirði.

Aðventukveðja frá bæjarstjóra Hafnarfjarðar birðist í jólablaði Hafnarfjarðar 2021 sem gefið er út þriðja árið í röð og dreift í hús í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og hluta Reykjavíkur. 

Aðventukveðja frá bæjarstjóra Hafnarfjarðar

——————

Njótum aðventunnar í Hafnarfirði – í hlýlega og heillandi jólabænum 

Jólaljósin mild og fögur eru farin að lýsa upp tilveruna í Hafnarfirði og við öll að komast í sannkallað hátíðarskap. Jólabærinn stendur undir nafni og skín skærar en nokkru sinni. Hafnarfjörður hefur á undanförnum árum ,,slegið í gegn“ sem jólabær, þar sem fallega skreytt jólaþorpið og jólahúsin, skemmtilegar sérverslanir og fjölbreyttir veitingastaðir, menningarhúsin og nú síðast Hellisgerði í jólabúningi, hefur laðað gesti að alls staðar frá. Hlýleiki og vinalegt andrúmsloft hefur mikið aðdráttarafl og á þessum tíma árs er gott að leita í notalega og afslappaða stemningu eins og við höfum náð að skapa hér í Hafnarfirði.

Jólaskreytingarnar sem komið var upp í Hellisgerði á síðastliðinni aðventu sýndu það og sönnuðu að fólk kunni að meta lágstemmda, heillandi upplifun í faðmi töfrandi umhverfis. Fólk streymdi að til að upplifa ævintýralega fegurð og samspil mildra ljósa og náttúrunnar. Nýlega var komið upp fallegum gróðurhúsum í Hellisgerði þar sem setjast má inn og njóta ljúffengra veitinga og einstakrar fegurðar lystigarðsins okkar. Auk alls þess sem bærinn hefur nú þegar upp á að bjóða á aðventunni hefur verið ákveðið að setja upp ,,Hjartasvellið“ og láta þar með gamlan draum margra um skautasvell í heilsubænum Hafnarfirði verða að veruleika. Má því segja að jólaþorpið í allri sinni dýrð hafi breitt úr sér um miðbæinn allan og nú einnig í Hellisgerði.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur öllum – og hlökkum til að njóta afþreyingar, lista, menningar, verslunar og veitinga saman í jólabænum Hafnarfirði sem skartar sínu fegursta um þessar mundir.

Með jólakveðju
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri 

Ábendingagátt