Nútímalegt bókasafn rís í Hafnarfirði

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag fyrirliggjandi hugmyndir um að flytja Bókasafn Hafnarfjarðar úr núverandi húsnæði að Strandgötu 1 í nýtt húsnæði að Strandgötu 26-30. Skrifað hefur verið undir skuldbindandi samkomulag milli 220 Fjarðar og Hafnarfjarðarbæjar. 

Horft til framtíðar með áformum um nútímalegt bókasafn

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum á miðvikudag fyrirliggjandi hugmyndir um að flytja Bókasafn Hafnarfjarðar úr núverandi húsnæði að Strandgötu 1 í nýtt húsnæði að Strandgötu 26-30. Skrifað verður undir skuldbindandi samkomulag milli 220 Fjarðar og Hafnarfjarðarbæjar sem byggir á hugmyndum ,,220 Fjarðar“ að reisa allt að 6.000 m2 nýbyggingu á lóð að Strandgötu 26-30 sem tengist eldra húsnæði Fjarðar að Fjarðargötu 13-15. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist strax á nýju ári og að Hafnarfjarðarbær fái afhent 1.200-1.500 fermetra húsnæði til kaupa eða leigu á tímabilinu 2023-2026.

Sjá fundargerð bæjarstjórnar 25.11.2020 – liður 2 

Breytt hlutverk bókasafna – hönnun með þarfir notenda í huga

Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að endurskoða og umbreyta húsnæði Bókasafns Hafnarfjarðar en núverandi húsnæði þykir hvorki skipulagt né hannað með þarfir nútíma notenda í huga. Húsnæðið er á 4 hæðum og 7 pöllum og of mikið af rými sem nýtist notendum safnsins takmarkað. Þannig þykir fjölnotasalur t.a.m. of lítill fyrir alla þá mögulegu starfsemi sem þar gæti farið fram. Árlega koma á bókasafnið á milli 115.000 – 125.000 gestir á öllum aldri. Hafnfirðingar eiga stóra drauma um bæjarbókasafnið sitt samkvæmt könnun sem framkvæmd var nú í sumar. Þar komu fram óskir um kaffihús, leiksvæði, þægilegar setustofur og lengri afgreiðslutíma auk fjölbreyttari þjónustu. „Bókasafn Hafnarfjarðar hefur þróast í það að vera menningarhús sem býður upp á fjölbreytta viðburði og þjónustu samhliða útlánum á safnkosti. Núverandi húsnæði stendur frekari þróun og eflingu fyrir þrifum og því mikilvægt og á sama tíma afar spennandi skref sem sveitarfélagið er að taka með þessari ákvörðun“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Nýtt húsnæði á einni hæð býður upp á mikla möguleika til að þjóna gestum og gangandi mun betur og stærri og opnari fjölnotasalur myndi nýtast vel fyrir bæði viðskiptavini sem og starfsfólk bæjarins. Fyrirliggjandi hugmyndir tala vel saman við þá þróun og uppbyggingu sem hefur átt sér stað á nýjum bókasöfnum sem byggð hafa verið á Norðurlöndum þ.m.t. í Helsinki, Árósum og Osló síðustu árin. Þannig hefur aukin áhersla verið lögð mikil á að auk góðs úrvals af lestrar- og afþreyingarefni fyrir viðskiptavini sé hægt að fá afnot af tækjum, tólum og aðstöðu sem eru dýr í innkaupum eins og þrívíddarprentarar og vínylskerar, saumavélar og upptökuaðstaða. „Nú fer af stað vinna við að móta og vinna með hugmyndir fyrir þjónustu og nýjungar á nýju og nútímalegu safni og verður m.a. leitað í hugmyndabrunn íbúa, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila.“ segir Rósa.

Sjá kynningarefni í fundargerð bæjarstjórnar 11.11.2020

Fjolmenningarsetur1Fjolmidlunarsetur2Mismunandi útfærslur að viðbyggingu við Fjörð verslunarmiðstöð eru í skoðun.

Fj1Fj2Fj3Fyrstu hugmyndir að nýju útliti Fjarðar verslunarmiðstöðvar.

Ábendingagátt