Ný brettahöll í Hafnarfirði á nýju ári

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur tekið á leigu Selhellu 7 í Hafnarfirði. Húsnæðið er hugsað sem ný brettahöll í Hafnarfirði og mun meðal annars hýsa æfingar og keppni snjó- og hjólabretta auk BMX reiðhjóladeilda Brettafélags Hafnarfjarðar. 

Brettafélag Hafnarfjarðar flytur að Selhellu 7

Hafnarfjarðarbær hefur tekið á leigu Selhellu 7 í Hafnarfirði sem verður að hluta til nýtt fyrir Brettafélag Hafnarfjarðar. Húsnæðið er hugsað sem ný brettahöll í Hafnarfirði og mun meðal annars hýsa æfingar og keppni snjó- og hjólabretta auk BMX reiðhjóladeilda Brettafélags Hafnarfjarðar. Brettafélagið, sem hefur um árabil verið til húsa að Flatahrauni 14, mun hafa til umráða um 800 fermetra svæði undir starfsemi félagsins í stórum og glæsilegum sal á nýjum stað.  

Stefnt að innflutningi snemma á nýju ári  

Um er að ræða nýtt og glæsilegt húsnæði sem verður að stærstum hluta nýtt fyrir Brettafélag Hafnarfjarðar.  Bæjarráð samþykkti leigutökuna á fundi sínum 30. nóvember síðastliðinn og skrifuðu Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Bjarni Gunnarsson eigandi Icetransport og stjórnarformaður Vesturkants ehf, sem er eigandi Selhellu 7, nýverið undir samning til tíu ára. Undirbúningsvinna við hönnun og framkvæmdir við nýja aðstöðu er hafin og vonir um að nýtt húsnæði verði tilbúið fyrir innflutning Brettafélagsins snemma á nýju ári. Flutningur í nýtt húsnæði mun marka tímamót og byltingu í aðstöðu fyrir Brettafélag Hafnarfjarðar og aðra þá bæjarbúa sem stunda þessar tegundir íþrótta. Bæjarstjóra og sviðsstjórum Hafnarfjarðarbæjar var samhliða ákvörðun um leigutöku falið að vinna áfram að útfærslu þess rýmis í húsnæði sem ekki verður nýtt fyrir Brettafélagið.   

Ábendingagátt