Ný hjólastefna samþykkt í heilsubænum Hafnarfirði

Fréttir

Hjólastefna Hafnarfjarðar til áranna 2023-2029 er sett fram til að bæta hjólreiðasamgöngur í bænum og tengingar við nærliggjandi sveitarfélög. Markmið stefnunnar er að bæta innviði og þjónustu til þess að auka hlutdeild hjólreiða í Hafnarfirði og ýta undir almenna hjólamenningu.

Hjólastefna Hafnarfjarðar var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þann 7. júní síðastliðinn. Hjólastefna Hafnarfjarðar til áranna 2023-2029 er sett fram til að bæta hjólreiðasamgöngur í bænum og tengingar við nærliggjandi sveitarfélög. Markmið stefnunnar er að bæta innviði og þjónustu til þess að auka hlutdeild hjólreiða í Hafnarfirði og ýta undir almenna hjólamenningu. Þannig er hægt að stuðla enn betur að heilsusamlegum lífstíl ásamt því að gera Hafnarfjörð að enn betri og eftirsóttari bæ.

Brugðist við breyttum ferðavenjum

Hjólastefnu Hafnarfjarðar er ætlað að bregðast við áskorunum sem Hafnarfjörður stendur frammi fyrir svo sem breyttum ferðavenjum, íbúafjölgun, breyttum húsnæðisþörfum, samkeppnishæfni, loftlagsmálum og lýðheilsu. Árið 2019 undirrituðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samgöngusáttmála fyrir árin 2019-2034, þar sem samþykkt var að fjárfesta í innviðum fjölbreyttra samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að auka valfrelsi íbúa og stefna að kolefnishlutlausu samfélagi. Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 eru sett fram markmið um að hlutdeild gönguferða og hjólreiða í öllum ferðum innan svæðisins árið 2040 verði a.m.k. 30%. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 eru sett fram markmið um uppbyggingu vandaðs göngu- og hjólreiðastígakerfis til þess að draga úr bílaumferð. Hjólreiðar hafa aukist mikið á Íslandi á undanförnum þremur árum og hefur innflutningur á reiðhjólum nær tvöfaldast. Fjölgunin er nær alfarið vegna rafmagnshjóla og rafmagnshlaupahjóla. Jafnframt hafa hjólreiðar til og frá vinnu á höfuðborgarsvæðinu aukist um tæp 7% á milli áranna 2021 og 2022, á tímabilinu september til desember.

Hjólastefnan er hluti af verkefninu Heilsubærinn Hafnarfjörður

Það er mjög mikilvægt að Hafnarfjörður styðji við þessa þróun með því að byggja upp innviði til hjólreiða, sem skapar hvata fyrir bæjarbúa til að ferðast á hjóli hvort heldur sem er til vinnu, frístunda eða æfinga. Einnig er tækifæri til að gera Hafnarfjörð að spennandi áfangastað fyrir margvíslegar hjólreiðar hvort heldur sem er götuhjólreiðar, fjallahjólreiðar í upplandi bæjarins eða innanbæjar. Hafnarfjörður hefur alla burði til þess að verða góður hjólreiðabær og er Hjólastefna Hafnarfjarðar fyrsta skrefið í þá átt. Hjólastefnan er hluti af verkefninu Heilsubærinn Hafnarfjörður.

Hjólastefna Hafnarfjarðar 2023-2029

Ábendingagátt