Ný hugmyndafræði um íbúarekið húsnæði í Hafnarfirði

Fréttir

Á fundi bæjarráðs í morgun voru lögð fram drög að stofnsamþykktum íbúarekins leigufélags í bænum sem hefur það að markmiði að lækka leiguverð, draga úr yfirbyggingu og auka aðkomu og þátttöku íbúanna sjálfra. Að mati bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar er hér um að ræða stórt  framfaraskref innan sveitarfélagsins. Hvatinn að verkefninu er að bregðast við þörf á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

Á fundi
bæjarráðs í morgun voru lögð fram drög að stofnsamþykktum íbúarekins
leigufélags í bænum sem hefur það að markmiði að lækka leiguverð, draga úr
yfirbyggingu og auka aðkomu og þátttöku íbúanna sjálfra. Að mati bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar
er hér um að ræða stórt  framfaraskref
innan sveitarfélagsins. Hvatinn að verkefninu er að bregðast við þörf á öruggu
leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að vinna
áfram að málinu.

Í ljósi ástands og aðstæðna á íbúðamarkaði í dag og
mikillar eftirspurnar eftir húsnæði í Hafnarfirði telur sveitarfélagið að allar
forsendur séu til staðar til þess að leigjendur sjálfir komi að rekstri og
utanumhaldi um leigu á almennum íbúðum. Hugmyndin er að leigjendurnir sjálfir
verði aðilar að sjálfseignarstofnun um félagið sem á og rekur íbúðirnar. Gert er ráð fyrir að félagið fái stofnframlag
frá sveitarfélagi og Íbúðalánasjóði sem nemur samtals 30% af byggingakostnaði,
sveitarfélagið með 12% og Íbúðalánasjóður 18%. Leiga á svo að standa undir
afborgunum og vöxtum af láni sem áætlast um 70% af byggingakostnaði, daglegum
rekstri og gjaldi í viðhaldssjóð sem á að standa undir eðlilegu viðhaldi
og nauðsynlegum endurbótum á íbúðum í eigu félagsins. Sveitarfélagið mun ekki
koma að rekstri félagsins með beinum hætti heldur mun stjórn þess verða í
höndum leigutaka sem skipa fulltrúaráð og stjórn í samræmi við samþykktir
félagsins. Ef allt gengur eftir má gera ráð fyrir að leiguverð verði nokkuð
lægra en almennt gerist í dag. Verklok framkvæmda er áætluð í lok árs 2018.

Fyrirhugað að nýtt félag reisi og leigi út íbúðir

Samkvæmt lögum er Íbúðalánasjóði og sveitarfélögum
heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að
stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa
á því að halda. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum er gert ráð fyrir að félaginu
verði úthlutað tveimur lóðum fyrir samtals átta íbúðir, fjórum í hvoru
húsi.  Fyrirhugað er að félagið reisi og
leigi út íbúðirnar. Er hér um að ræða viðbót við samstarfsverkefni ASÍ og
Hafnarfjarðarbæjar um uppbyggingu 150 leiguíbúða á fjögurra ára tímabili og
hefur Bjarg íbúðarfélag hses. þegar fengið úthlutað lóð undir fjölbýlishús í
Hafnarfirði undir það verkefni. „Við viljum
finna leiðir til að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga. Með stofnun
á Skarðshlíð íbúðarfélagi hses. aukum við aðgengi að öruggu húsnæði og bjóðum
húsnæðiskost sem er í samræmi við raunverulega greiðslugetu leigjenda. Hinn
almenni leigjandi ræður einfaldlega ekki orðið við leigu dagsins í dag. Við
viljum með þessu búa til fyrirmynd húsnæðisfélags hér í Hafnarfirði og vonumst
til þess að þetta verði einstaklingum og fjölskyldum hvatning til að taka
höndum saman og fleiri félög verði stofnuð í framhaldinu“
segir Haraldur L.
Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar. Bráðabirgðaútreikningar gera ráð
fyrir að leiguverð á hvern fermetra verði um kr. 1.600.- og leiguverð fyrir 90
fermetra íbúð gæti því verið um kr. 144.000- á mánuði. Miðað er við að kostnaður
vegna byggingar nemi kr. 360.000.- á fermetra.

Bærinn annast úthlutun íbúða

Gert er ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær auglýsi opinberlega
eftir leigjendum og mun íbúðum verða úthlutað til leigjenda sem eru undir
ákveðnum tekju- og eignamörkum eins og þau eru skilgreind í lögum um almennar
íbúðir. Til að tryggja í framtíðinni að leiguréttur verði ekki söluvara þarf að
skila honum inn til bæjarins í lok leigutíma. Leigjendur hafa forleigurétt að
stærri eða minni íbúðum innan félagsins. Með þeirri tilhögun að sveitarfélagið
sjái um úthlutun er tryggt að íbúðum verði úthlutað á grundvelli málefnalegra
sjónarmiða og að einstaka leigjendur geti ekki sjálfir framselt úthlutuðum verðmætum
leigurétti.

Ábendingagátt