Ný lyfta í Ásvallalaug

Fréttir

Nýlega var sett upp í Ásvallalaug lyfta fyrir fatlað fólk og aðra þá sem almennt eiga erfitt með að komast ofan í stærri laugar. Lyftan sem um ræðir heitir Poolpod og kemur frá Skotlandi. Hún er sú fyrsta hér á landi, öflug og handhæg og uppfyllir allar óskir til búnaðar af þessu tagi.

Nýlega var sett upp í
Ásvallalaug í Hafnarfirði lyfta fyrir fatlað fólk og aðra þá sem almennt eiga
erfitt með að komast ofan í stærri laugar. Lyftan sem um ræðir heitir Poolpod
og kemur frá Skotlandi. Hún var upphaflega hönnuð fyrir ólympíuleikana í London
2012 og hefur í framhaldinu verið sett upp víða um heim. Lyftan í Ásvallalaug
er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, öflug og handhæg og uppfyllir allar
óskir til búnaðar af þessu tagi. Lyftan er lokahnykkurinn í að gera Ásvallalaug
aðgengilega á alla vegu.

Viðkomandi laugar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, vera
svokallaðar „yfirfallslaugar“ til að búnaðurinn njóti sín og þau skilyrði eru
til staðar í Ásvallalaug. Með lyftunni fylgir sérútbúinn hjólastóll,
fjarstýring, armbönd og sérstök trilla sem gerir það að verkum að hægt er að
flytja hana úr stað án mikilla vandkvæða. Það þykir líka mikill kostur að
lyftan er fjölnota, ekki bara fyrir fólk í hjólastól heldur alla þá sem þurfa á
einhverri aðstoð að halda við að koma sér ofan í laugina. Staðið hefur til að
setja upp slíka lyftu í Ásvallalaug fá opnun laugarinnar árið 2008 og stundin í
dag því afar ánægjuleg. Þjónustan er viðbót við þá þjónustu sem þegar er fyrir
hendi í lauginni. Í Ásvallalaug er aðstaða til sundiðkunar og afþreyingar með
því besta sem völ er á. 50 metra sundlaug, kennslulaug og barnalaug, 5 heitir
pottar, eimbað, rennibraut og  leiktæki.
Að auki er  í húsinu líkamsræktarstöðin
Reebok fitness, sjúkraþjálfun, aðstaða fyrir Sundfélag Hafnarfjarðar og
Íþróttafélagið Fjörð.

„Síðustu mánuði höfum
við verið að vinna að mörkun heilsustefnu fyrir Hafnarfjarðarbæ og ásetjum
okkur með henni að stuðla að aukinni vellíðan íbúa með heilsueflandi aðgerðum
til framtíðar. Segja má að þetta skref sé eitt af fjölmörgum skrefum, sem við
munum taka á næstu vikum, mánuðum og árum, og öll miða að því að efla vellíðan
íbúa á öllum aldri, efla opin svæði og göngu- og hjólastíga ásamt því að jafna
aðgengi og hvetja íbúa til að neyta hollrar fæðu. Þessi áfangi í Ásvallalaug
greiðir og vonandi tryggir aðgang að sundiðkun og afþreyingu fyrir alla þá sem
það vilja og kjósa“
segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri
Hafnarfjarðarbæjar, í tilefni formlegrar opnunar lyftunnar í Ásvallalaug í dag. 

Ábendingagátt