Nýi kaffibarinn í Strandgötunni fær nafnið Barbara

Fréttir

Ljóst er að líf kviknar brátt í Barböru nýja kaffibarnum á Strandgötu 9 hér í hjarta Hafnarfjaðrar. Hjónin Katla Karlsdóttir og Sigurður Halldór Bjarnason með systursyni hans Pétri Orra Ingvarssyni hafa fest sér þetta fræga hús og stefna á að opna í næsta mánuði.

Ekki bara bar þótt heiti Barbara

Barbara skal staðurinn heita. Húsið, sem áður hýsti Súfistann og Mánabar, hefur tekið stakkaskiptum að innan. Fallegir litir prýða veggina og þar eru einstakir munir sem Katla hefur sérvalið inn í rýmið – margir sem hún hefur fundið eftir mikla leit í Góða hirðinum og fleiri nytjamörkuðum. Útkoman aðdáunarverð.

„Svona gripir fást ekki nýir í búð,“ segir hún og ljóst að hún hefur auga fyrir hlutunum. Nafnið Barbara ákváðu þau þrjú eftir mikla leit af góðu kvenmannsnafni, þar sem þeim fannst það passa vel við anda hússins. Valdimar Víðisson skellti sér yfir götuna og hitti þau ásamt Freyju Rún Kjartansdóttur konu Péturs sem hafa undirbúið opnunina vel og eru spennt.

Tilfinningar tengdar húsinu

„Það er okkur ljóst að fólki þykir mjög vænt um húsið,“ segir Sigurður. Fólk reki inn nefið sé útihurðin opin, vilji vita hvernig gangi og hlakki til að setjast með kaffibolla. „Það hefur sterkar skoðanir á hvað eigi að halda sér hér innandyra,“ segir hann við Valdimar sem er í óformlegri heimsókn. En húsið hefur fengið upplyftingu, er breytt utan þess að súlan í miðju rýminu, sem nú stendur við barborðið er enn sú sama. Barborðið ekki. Það hefur verið flutt enda á milli. Áhugi fólks endurspeglast svo í miklum Instagram-áhuga. Þúsundir fylgja þeim nú þegar þar.

Unnið er nótt sem nýtan dag við undirbúninginn, mikilvægt sé að komast sem fyrst af stað og ná í skottið á tónlistar- og bæjarhátíðinni Hjarta Hafnarfjarðar. Þau hnýta lausa enda og horfa í átt að endamarkinu.

Valdimar fagnar því að fá líf í húsið. „Ég óska þeim velfarnaðar með þennan nýja, virkilega hlýlega stað.“

 

Ábendingagátt