Nýjar áskoranir í skólastarfi

Fréttir

Mannkynið er á faraldsfæti og heimurinn hefur skroppið saman. Fólksflutningar til og innan Evrópu hafa ný áhrif á skólastarf auk þess sem samfélög taka breytingum innan frá. Það hefur fært íslenskum grunnskólum auknar áskoranir um þróun kennsluhátta og stjórnunar til að mæta fjölbreyttari nemendahópi en áður.

Sænskur skólastjóri heimsækir Ísland

Annelie van Lunteren, skólastjóri í Malmö í Svíþjóð, hélt erindi fyrir íslenska skólastjórnendur og kennara í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn föstudag. Koma Annelie til Íslands er framhald af námsferð íslenskra grunnskólakennara til Svíþjóðar á síðasta skólaári til að kynnast námi, kennslu og aðlögun innflytjenda inn í norræn skólakerfi. Ferðin var styrkt af Erasmus+ verkefni Evrópusambandsins.  Annelie var þá skólastjóri Rosengård skólans í Malmö þar sem allir nemendur skólans hafa sænsku sem annað tungumál (Zlatan Ibrahimovic var í skólanum á sínum tíma) en starfar núna í öðrum grunnskóla á vegum sveitarfélagsins Malmö. Í kjölfar ferðarinnar til Svíþjóðar var ákveðið að bjóða Annelie til Íslands til að fræða íslenskt skólafólk um nám og kennslu í fjölmenningarsamfélagi.

Fræðsla fyrir skólastjórnendur, kennara og aðra áhugasama

Haldin var sérstök fræðsla fyrir grunnskólastjórnendur á höfuðborgarsvæðinu þar sem Annelie hélt erindi og ræddi við skólastjórnendur. Eftir hádegi var haldið málþing í HÍ fyrir grunnskólakennara og aðra áhugasama um nám og kennslu í grunnskólum. Þar hélt Annelie einnig erindi auk þriggja annarra kennara um málefni tengd innflytjendum og námi og kennslu í grunnskólum.

Auknar áskoranir um þróun kennsluhátta og stjórnunar

Mannkynið er á faraldsfæti og heimurinn hefur skroppið saman. Fólksflutningar til og innan Evrópu hafa ný áhrif á skólastarf auk þess sem samfélög taka breytingum innan frá. Það hefur fært íslenskum grunnskólum auknar áskoranir um þróun kennsluhátta og stjórnunar til að mæta fjölbreyttari nemendahópi en áður. Þetta eru áherslur um nám og kennslu í fjölmenningarlegu samfélagi þar sem kennsluhættir og aðlögun nemenda að nýju samfélagi verður stöðugt stærri þáttur af skólastarfinu, ekki síst sökum ólíkrar tungumálakunnátta og ólíkra siða. Þær áskoranir munu eingöngu aukast á næstu árum í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins. Að komu Annelie stendur samstarfshópur frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu (SSH samstarf) sem þessi misserin stendur fyrir margvíslegri fræðslu um fjölmenningu og nám í grunnskólum. Hópurinn hefur staðið að fræðslu frá árinu 2013 og einnig sent kennara og kennsluráðgjafa til Norðurlanda í fræðsluferðir og skólaheimsóknir í samstarfi við Erasmus+ verkefni Evrópusambandsins í gegnum RANNÍS. Skólaárið 2018-2019 eru 12 grunnskólakennarar af höfuðborgarsvæðinu á leið í skólaheimsóknir í norræna grunnskóla þar sem þeir munu dvelja í tvær vikur til að kynnast daglegu skólastarfi í skólum þar sem fjölmenningarlegar áherslur eru áberandi, áfram í samstarfi við RANNÍS.

Með boði Annelie til Íslands eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að benda á mikilvægi þeirra breytinga sem eru framundan á skólastarfi á Íslandi (og eru reyndar vel hafnar) og taka ábyrgð á þeim með því að fræða skólasamfélagið um hvernig það getur betur mætt nýjum áskorunum. Heimsókn Annelie er liður í því verkefni.

Ábendingagátt