Nýjar reiknivélar gera gjaldskrá gegnsærri

Fréttir

Í sumar hafa nokkrar nýjar reiknivélar litið dagsins ljós sem allar hafa það að markmiði að gera gjaldskrá Hafnarfjarðarbæjar aðgengilegri og skiljanlegri fyrir íbúa. Þegar hafa verið settar í loftið reiknivélar fyrir leikskólagjöld, frístundaheimili og fasteignagjöld. 

Í sumar hafa þrjár nýjar reiknivélar litið dagsins ljós sem allar hafa það að markmiði að gera gjaldskrá Hafnarfjarðarbæjar aðgengilegri og skiljanlegri fyrir íbúa. Þegar hafa verið settar í loftið reiknivélar fyrir leikskólagjöld, frístundaheimili og fasteignagjöld. 

Framkvæmdin er liður í því að bæta og þróa þjónustu sveitarfélagsins með það fyrir augum að leysa sem flest mál á einfaldan máta og í fyrstu snertingu. Hafnarfjarðarbær hefur boðið öðrum sveitarfélögum greiðan aðgang að lausnunum og kallar eftir áframhaldandi góðu stafrænu samstarfi á sem víðtækustu sviði. Reiknivélarnar eru smíðaðar af Patreki Inga Sigfússyni sem sinnir sumarstarfi á þjónustu- og þróunarsviði í gegnum sumarátaksverkefni Hafnarfjarðarbæjar og Vinnumálastofnunar. Patrekur er nemandi í forritun við Háskólann í Reykjavík.

Reiknivél fyrir frístundaheimili

Með nýrri reiknivél fyrir frístundaheimili geta foreldrar og forráðamenn barna fundið auðveldlega út úr kostnaði við frístundaheimili og þannig sundurliðun eftir dvalargjaldi og fæðisgjaldi. Frístundaheimili Hafnarfjarðarbæjar eru ætluð börnum í 1.-4. bekk og starfa við alla grunnskóla í Hafnarfirði. Þannig er hægt að velja um fjölda daga í frístund og er greitt fyrir hvern dag fyrir sig. Innifalið í gjaldi er síðdegishressing, vistun og lengd viðvera á dögum þar sem er opið allan daginn. Veittur er systkinaafsláttur en afsláttur reiknast af almennu dvalargjaldi, fyrir hvert barn umfram eitt.

Skoða reiknivél fyrir frístundaheimili

Reiknivél fyrir leikskóladvöl

Gjaldskrá fyrir leikskóladvöl er ein þeirra gjaldskráa sem á það til að vefjast fyrir þjónustuþegum. Með árunum hafa ýmsir afslættir og nýjar forsendur verið innleiddar t.d. systkinaafslættir og geta foreldrar og forráðamenn nú með góðu móti fundið sjálfir út kostnað miðað við fjölda barna og lengd dvalar. Sækja þar sérstaklega um tekjutengdan afslátt í gegnum Mínar síður Hafnarfjarðarbæjar.

Skoða reiknivél fyrir leikskóladvöl

Reiknivél fyrir fasteignagjöld

Með tilkomu nýrrar reiknivélar fyrir fasteignagjöld geta íbúar reiknað út hversu há fasteignagjöld þeir þurfa að greiða árlega og fengið birta mánaðarlega greiðslu. Sundurliðun gjaldanna er einnig gefin upp sem eykur enn frekar á gagnsæi gjaldskrár. Álagning fasteignagjalda byggir á fasteignamati húss og lóðar og miðar reiknivélin við að um sé að ræða húsnæði sem hefur að lágmarki verið skráð fokhelt – byggingarstig 4 eða hærra.

Skoða reiknivél fyrir fasteignagjöld

Við fögnum öllum ábendingum!

Ef þú ert með ábendingu tengda nýju reiknivélunum eða aðra þjónustuveitingu þá endilega sendu okkur línu. Við tökum vel á móti öllum ábendingum, stórum sem smáum!

Ábendingagátt