Nýjar verslanir í Firði opna á föstudag – Flugeldasýning

Fréttir

Fjörður, verslunarmiðstöð Hafnarfjarðar,  nærri tvöfaldast á næstu dögum. Undirbúningur opnunar nýrra verslana stendur sem hæst og fáum við Hafnfirðingar að sjá afraksturinn á föstudag. Því verður fagnað með flugeldasýningu.

Hjarta Hafnarfjarðar stækkar með nýjum Firði

Fjörður, verslunarmiðstöð Hafnarfjarðar, tekur stórstígum breytingum þessa dagana. Verslunarmiðstöðin nærri tvöfaldast að stærð. Undirbúningur opnunar nýrra verslana stendur sem hæst og fáum við Hafnfirðingar að sjá afraksturinn á föstudag. Fjörður stækkar samanlagt um 8.700 fermetra.

Átján íbúðahótel, Strand Hotel Apartments, opnar svo formlega í Firði Hafnarfirði um mánaðamótin. Tímamótunum verður fagnað í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ með flugeldasýningu kl. 19.20 á föstudagskvöld.

„Við erum ótrúlega stolt af þessu afreki. Tíu ár eru síðan við fórum af stað í verkefnið. Þrjú ár frá fyrstu skóflustunguna. Nú sjáum við til lands og viljum fagna því með Hafnfirðingum og gestum,“ segir Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðar.

Hótelíbúðirnar og stærri verslunarmiðstöð eru ekki eina viðbótin við Fjörð. Þar er einnig 31 lúxusíbúð. Þegar hefur hluti þeirra verið seldur, enda staðsetningin einstök, í hjarta Hafnarfjarðar.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir uppbygginguna í Firði er eitt stærsta framfaraskref sem stigið hafi verið í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi. „Hér erum við að skapa lifandi, aðlaðandi miðbæ þar sem íbúar og gestir geta bæði búið, verslað og notið samveru alla daga ársins,“ segir hann.

Guðmundur Bjarni segir rekstrarumhverfi verslunar og þjónustu í miðbæ Hafnarfjarðar verða líflegri með samspili við hótelið og íbúðirnar. „Miðbærinn hér verður draumastaðurinn fyrir Íslendinga sem vilja upplifa aðventuna á Íslandi rétt eins og þeir væru í borgarferð erlendis.“

Fjöldi verslana verður í nýja Firði, þar á meðal Gina Tricot, Lindex, A4, Lemon, Klukkan, Daily Comforts, Emil og Lína, Kona, Skóhöllin, Lyf og heilsa, Augastaður, Leikfangaland og Daría & Herrar – verslun með kvenfatnað og herraföt. Þá verður gourmet-matarverslun í Firði.

„Já, við hlökkum til að taka á móti Hafnfirðingum og gestum,“ segir Guðmundur Bjarni. Verslunarmiðstöðin verði sú eina hér á landi tengd verslunargötu. „Hér í Strandgötunni eru einnig fjöldi verslana sem vert er að heimsækja –  ég tala nú ekki um fyrir jólin þegar Jólaþorpið á Thorsplani er opið.“

Guðmundur Bjarni hvetur gesti til að leggja við gamla eða nýja Lækjarskóla og rölta í hjarta Hafnarfjarðar. „Nú er allt að smella. Þetta er íslenska leiðin. Við vinnum fram á síðustu mínútu og opnum um leið og hægt er.“

Ábendingagátt