Nýjungar í matarþjónustu við grunnskólanemendur

Fréttir

Haustið 2019 tekur við nýtt fyrirkomulag á matarþjónustu við nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar. Þannig stendur nemendum til boða hafragrautur í morgunmat þeim að kostnaðarlausu og áskrift að ávöxtum um miðjan morgun samhliða skráningu í hádegisverð.

Haustið 2019 tekur við nýtt fyrirkomulag á matarþjónustu við nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar. Sami þjónustuaðili, Skólamatur ehf, sinnir þjónustunni áfram í sjö grunnskólum bæjarins en einn skóli, Áslandsskóli, annast matarþjónustuna sjálfur.

Frír hafragrautur í boði í upphafi skóladags

Í upphafi skóladags stendur hafragrautur með mjólk og kanil nemendum til boða frítt í öllum skólum áður en kennsla hefst (hefst um 10-15 mín. fyrir kennslu). Aðeins þarf að mæta og skrá þátttöku sína á staðnum á hverjum degi svo hægt sé að hafa yfirsýn yfir hve margir þiggja þjónustuna.

Áskrift að ávöxtum/grænmeti 

Nemendum býðst að gerast áskrifendur að ávöxtum/grænmeti á hverjum skóladegi um miðjan morgun í stað þess að þeir komi með nesti að heiman – en auðvitað er nemendum áfram velkomið að koma með sitt eigið nesti. Ávextirnir eru seldir í mánaðarlegri áskrift hjá Skólamat og um þetta gilda sömu reglur um pöntun og afpöntun líkt og með hádegisverð í áskrift. Ekki er hægt að kaupa ávexti/grænmeti staka daga og því aðeins fyrir alla daga mánaðarins í senn óháð aðstæðum einstakra nemenda. Þannig eru engir frádrættir veittir vegna veikinda, leyfa o.þ.h. sem geta komið upp þar sem um jafnaðargjald er að ræða. Daggjald á ávöxtum/grænmeti er 102.- kr. á hvern nemendadag mánaðarins svo mánaðaráskriftin er aðeins breytileg eftir fjölda skóladaga í mánuði. Miðast við ákveðið magn á nemanda sem hann fær á hverjum degi, yngri nemendur (1.-7. bekk) inn í kennslustofur en eldri nemendur (8.-10. bekk) sækja í matsal í frímínútum. 

Pöntun á áskrift er á vef Skólamatar ehf,  fyrir foreldra í öðrum skólum en Áslandsskóla.
Athugið að velja þarf skóla til að sjá val í hverjum skóla fyrir sig.

Val um tvo rétti daglega í hádegisverð

Hádegisverður verður í boði líkt og áður með áþekku fyrirkomulagi, þ.e. seld í mataráskrift þar sem hægt er að velja úr fasta vikudaga. Áfram verður um tvo rétti að ræða daglega, meginrétt sem hugsaður er fyrir stærsta hluta hópsins en síðan annar valmöguleiki sem oft snýr að grænmetisáherslu á móti kjöti þegar slíkt er í meginrétti. Verð á máltíðum í mánaðaráskrift er 463.- kr. á dag eftir að niðurgreiðsla bæjarins er komin á máltíðina. Áfram verður hægt að kaupa 10 miða kort sem er þá með hærra verð fyrir einstakar máltíðir en í áskrift. 

Pöntun á áskrift er á vef Skólamatar ehf, fyrir foreldra í öðrum skólum en Áslandsskóla. Athugið að velja þarf skóla til að sjá val í hverjum skóla fyrir sig.

Hugmynd í undirbúningi – síðdegishressing

Í undirbúningi er einnig að koma á möguleikum annarra nemenda en þeirra sem eru í frístundaheimili eftir hádegi að kaupa sömu síðdegishressingu líkt og nemendur fá í frístundaheimilum. Sú framkvæmd verður kynnt síðar.

Greiðara aðgengi að hollri og góðri næringu allan skóladaginn 

Markmið þessara breytinga er að bregðast við nýjum þjóðfélagsaðstæðum þannig að nemandi í grunnskóla geti fengið mat í skóla allan skóladaginn og þurfi ekki að koma með nesti að heiman sé vilji til þess – en eins og áður er öllum velkomið að koma með nesti að heiman líkt og áður. Þetta er gert til að létta á álagi í fjölskyldum en sömuleiðis að gefa öllum nemendum tækifæri til að fá hollan mat og góða næringu allan skóladaginn og þurfi ekki að sækja annað, til dæmis í sjoppur. Þar sem um miklar breytingar er að ræða er ekki ólíklegt að það taki smá tíma að koma öllum þessum verkefnum í heppilegan farveg sem þjónar hverjum nemenda. Starfsmenn þakka fyrirfram sýnda biðlund  svo beðið er um biðlund og samstarfsvilja ef það tekur einhvern tíma að koma þessu öllu í góða framkvæmd.

Mynd í forgrunni er í eigu Skólamatar ehf. 

Ábendingagátt