Nýr barnahnappur og Barnasáttmálinn

Fréttir

Sérstakur barnahnappur hefur verið settur upp á spjaldtölvur nemenda í 5.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Táknið opnar aðgang að síðu þar sem börn og ungmenni geta lýst líðan sinni, áhyggjum eða aðstæðum og óskað eftir aðstoð frá námsráðgjafa skólans eða barnavernd fyrir sig sjálf eða aðra.

Innleiðing á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna heldur áfram

Sérstakur barnahnappur hefur verið settur upp á spjaldtölvur nemenda í 5.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Barnahnappurinn opnar aðgang að síðu þar sem börn og ungmenni geta lýst líðan sinni, áhyggjum eða aðstæðum og óskað eftir aðstoð frá námsráðgjafa skólans eða barnavernd fyrir sig sjálf eða aðra. Þegar óskað er eftir aðstoð hefur námsráðgjafi samband við þann sem sendir skilaboðin og fær nánari upplýsingar ásamt því að upplýsa foreldra um hjálparbeiðnina, sé talin ástæða til. Úrvinnsla fer síðan að verkferlum skólans þar sem velferð barnsins er höfð að leiðarljósi. Mikilvægt er að hafa ávallt í huga að öll börn og ungmenni eiga að njóta verndar og umönnunar og skiptir þar mestu að styrkja foreldra og forsjáraðila í uppeldishlutverki sínu.

 

Tækifæri til að tjá sig um eigin málefni

Hafnarfjarðarbær er að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Liður í innleiðingarferlinu er að börn hafi tækifæri til að tjá sig um eigin málefni (12. grein Barnasáttmálans). Barnvænt sveitarfélag er verkefni sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins.  Vegferð Hafnarfjarðarbæjar hófst með undirritun á samstarfssamningi við UNICEF á Íslandi í upphafi árs 2019. Innleiðing Barnasáttmálans inn í sveitarfélagið, ásamt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, er hluti af heildarstefnu Hafnarfjarðar sem gildir til ársins 2035. Í stefnunni er lögð áhersla á að viðmið Barnasáttmálans séu notuð í þjónustu við börn og ungmenni.

Barnasáttmálinn er leiðarljósið – fimm grundvallaratriði

Barnvæn sveitarfélög byggja á fimm grunnþáttum sem allir tengjast réttindum barna, þekking á réttindum barna, því sem barni er fyrir bestu, jafnræði – að horft sé til réttinda barna, þátttöku barna og barnvænni nálgun. Innleiðing Barnasáttmálans felur í sér samþykki sveitarfélagsins til að hafa sáttmálann að leiðarljósi í starfi sínu og að grunnþættirnir fimm gangi sem rauður þráður í gegnum stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Barnvæn sveitarfélög stuðla að virkri þátttöku barna í málefnum sem snerta þau og eiga sveitarfélögin markvisst samráð við börn og ungmenni til að bæta þjónustu sína.

Vegferðin í átt að viðurkenningu UNICEF á Íslandi 

Nýr barnahnappur er dæmi um aðgerð í þeirri vegferð sveitarfélagsins að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi. Hugmyndin kviknaði á Ungmennaþingi Hafnarfjarðar. Á ungmennaþingi er hafnfirskum börnum og ungmennum gefin sterkari rödd og tækifæri til að koma hugmyndum sínum er varða heimabæinn Hafnarfjörð og þjónustu sveitarfélagsins á framfæri. Á síðasta þingi kom meðal annars skýrt fram að börnum og ungmennum vanti vettvang til að óska eftir aðstoð og eftir frekari skoðun, stöðumat og rýni varð útkoman barnahnappur fyrir öll börn í 5.-10.bekk í  Hafnarfirði sem hér er kynntur til sögunnar.

Ábendingagátt