Nýr forvarnarfulltrúi – Jóna Rán vinnur með foreldrafélögunum

Fréttir

Jóna Rán Pétursdóttir er nýr forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar. Hún hefur börn, ungmenni og foreldra þeirra í fókus í starfi. Forvarnir eru lykiþáttur í velferð þeirra.

Forvarnarfulltrúi í 100% starfi

„Skólaforðun og áhættuhegðun unglinga verður einn helsti fókus minn. Börn, unglingar og foreldrar þeirra verða í brennidepli,“ segir Jóna Rán Pétursdóttir sem hefur verið ráðin forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar.

Jóna starfar á mennta- og lýðsheilsusviði en þvert á allar stofnanir bæjarins sem snerta börn og ungmenni og verður hluti af teymi íþrótta- og forvarna. Jóna er fyrsti forvarnarfulltrúinn sem sinnir eingöngu forvörnum í fullu starfi. „Já, ég verð bakland foreldrafélaganna,“ segir hún.

Forvarnir fyrir heilnæmt samfélag

Jóna Rán hefur stýrt æskulýðs- og forvarnastarfi Seltjarnanesbæjar um árabil við stefnumótun og framkvæmd á faglegu forvarna- og frístundastarfi. Hún hefur í störfum sínum verið í miklu og góðu samstarfi við foreldra sveitarfélagsins, bæði með fræðslu og fundum fyrir ákveðna hópa og með reglubundnum fundum með foreldrafélögunum í sveitarfélaginu. Hún hefur B.A. gráðu frá Háskóla Íslands í félagsfræði og síðan M.SC í mannauðsfræðum frá sama skóla.

Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðstjóri mennta- og lýðheilsusviðs, segir að með ráðningu Jónu Ránar sé verið að efla þá stefnu bæjarins að Hafnarfjörður sé heilnæmt og farsælt samfélag. „Við viljum horfa til þess að lýðheilsa og hamingja séu á færi allra íbúa,“ segir Fanney.

Lykilþáttur í velferð

Hún bendir á að breytt samfélagsgerð og nýjar áskoranir kalli á aukna áherslu á forvarnir, samstöðu og samtal. „Forvarnir eru sterkur lykilþáttur í því að tryggja velferð, seiglu og farsæld til framtíðar. Það er mikilvægt að allt starf með börnum sem bærinn kemur að sé mótað í anda velferðar allra og sé sem árangursríkast,“ segir hún.

„Með nýjum forvarnafulltrúa fá foreldrar, foreldrafélög og skólasamfélagið í heild traustan fulltrúa í stjórnkerfi bæjarins. Jóna Rán er tengill, ráðgjafi og samstarfsaðili sem vinnur með okkur öllum að því að skapa öruggt og uppbyggilegt umhverfi fyrir börn og ungmenni,“ segir Fanney Dóróthe.

Jóna Rán segir mikilvægt að grípa inn í sem fyrst og beina börnum réttan veg. Stefnan sé til að mynda að koma í veg fyrir skólaforðum á fyrstu stigum. „Farsæld barna er lykiláhersluatriði mitt. Finna leiðir svo öll börn og ungmenni geti blómstrað eins snemma og hægt er.“

Jóna Rán, velkomin til starfa.

 

 

Ábendingagátt