Leikskóli byggður fyrir eigið fé

Fréttir

Nýr leikskóli á Völlunum í Hafnarfirði var opnaður formlega í dag og bætist þar með í hóp þeirra 16 leikskóla sem starfræktir eru í bæjarfélaginu. Uppbygging leikskólans er að öllu leyti fjármögnuð fyrir eigið fé og skólinn því einkennandi framkvæmd fyrir breytta stefnu og áherslur í rekstri bæjarins.

Nýr leikskóli á Völlunum í Hafnarfirði var opnaður formlega í dag og bætist
þar með í hóp þeirra 16 leikskóla sem starfræktir eru í bæjarfélaginu. Bjarkalundur
er fjögurra deilda leikskóli og mun starfsemi tveggja deilda hefjast nú í
ágúst. Uppbygging leikskólans er að öllu leyti fjármögnuð fyrir eigið fé og
skólinn því einkennandi framkvæmd fyrir breytta stefnu og áherslur í rekstri bæjarins.

Á Völlunum búa í dag rúmlega 5000 manns og bætir
leikskólinn því úr brýnni þörf fyrir leikskólapláss í hverfinu. Tvær deildir
við skólann hefja starfsemi sína nú í ágúst. Gert er ráð fyrir að leikskólinn muni
taka á móti í kringum 100 börnum þegar allar deildir hafa verið opnaðar en áætlað
er að um 25 börn á aldrinum 2ja-5 ára verði á hverri deild.  Nafnið Bjarkalundur er niðurstaða úr
nafnasamkeppni sem efnt var til á vormánuðum, deildirnar tvær bera heitin Hraun
og Mosi. Bjarkalundur starfar í anda Reggio Emila aðferðafræðinnar þar sem
leitast er við að horfa á barnið sem getumikinn einstakling, það fái frelsi til
athafna og að þroskast á sínum forsendum. Leikskólinn mun strax í upphafi
starfsemi sinnar hefja samstarf við Háskólann á Akureyri um þróunarverkefni í
læsi. „Við höfum beðið eftir nýjum
leikskóla fyrir svæðið með eftirvæntingu um nokkurt skeið. Fjölskyldufólki í
hverfinu hefur fjölgað svo um munar og mun fjölga meira á næstu misserum og er uppbyggingin
liður í að tryggja alla viðeigandi þjónustu á svæðinu. Ég hlakka til að
fylgjast með starfsemi leikskólans og því lífi sem hann færir samfélaginu á
Völlunum“
segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar við
opnun leikskólans.

Leikskólinn, sem er ein hæð og kjallari, er byggður
samkvæmt teikningum Sigurlaugar Sigurjónsdóttur en hönnun á húsnæði var í
höndum ASK Arkitekta ehf, Mannvits hf og Formu ehf. Byggingaframkvæmdir við
skólann hófust vorið 2015 að undangengnu útboði þar sem gengið var að tilboði frá
SÞ verktökum að upphæð 387.970.801.- krónur. Heildarframkvæmdarkostnaður mun verða
um 430 milljónum króna og skýrist mismunur einna helst af magnaukningu,
kjallara og öðrum tilfallandi kostnaði. Kostnaðarmat verks var um 420 milljónir
króna. „Leikskólinn markar tímamóti í
rekstri Hafnarfjarðarbæjar og er að mínu áliti ákveðinn minnisvarði um þann jákvæða
viðsnúning sem er að eiga sér stað í rekstrinum. Nýr leikskóli er að öllu leyti
fjármagnaður fyrir eigið fé Hafnarfjarðarbæjar og framkvæmdin því gott dæmi um
breyttar áherslur og stefnu í rekstri bæjarins“
segir Haraldur. Sveitarfélagið
hefur á síðustu mánuðum markvisst unnið að því að greiða upp óhagstæð lán,
draga úr nýrri lántöku og framkvæma fyrir eigið fé. Gangi allt eftir í ár
verður árið 2016 fyrsta ár í rekstri Hafnarfjarðarbæjar a.m.k. frá árinu 2002
þar sem engar lántökur eru á vegum sveitarfélagsins. 

Ábendingagátt