Nýr leikskóli opnar í Skarðshlíð

Fréttir

Starfsfólk í nýjum leikskóla í Skarðshlíðarhverfi tekur á móti fyrstu börnunum um miðjan ágúst en formleg opnun á leikskólanum fór fram í dag. Skarðshlíðarleikskóli bætist þar með í hóp þeirra sautján leikskóla sem starfræktir eru í Hafnarfirði og mun hann starfa undir sama þaki og grunnskóli hverfisins, tónlistarskóli og íþróttamiðstöð. Fyrirkomulagið er til þess fallið að opna á aukin tækifæri og fjölbreyttar leiðir fyrir nemendur og kennara til lærdóms og samvinnu.

Fyrirkomulag sem eykur tækifæri
og býður upp á fjölbreyttar leiðir til lærdóms og samvinnu.

Starfsfólk í nýjum leikskóla í
Skarðshlíðarhverfi tekur á móti fyrstu börnunum um miðjan ágúst en formleg
opnun á leikskólanum fór fram í dag. Skarðshlíðarleikskóli bætist þar með í hóp
þeirra sautján leikskóla sem starfræktir eru í Hafnarfirði og mun hann starfa
undir sama þaki og grunnskóli hverfisins, tónlistarskóli og íþróttamiðstöð.
Fyrirkomulagið er til þess fallið að opna á aukin tækifæri og fjölbreyttar
leiðir fyrir nemendur og kennara til lærdóms og samvinnu.

TilvonandiLeikskolabarn

Þessi unga dama er tilvonandi nemandi í Skarðshlíðarleikskóla

Skólarnir þjóna nýrri byggð í Skarðshlíð og Vallahverfi að hluta

Starfsemi beggja skólastiganna
mun þjóna nýrri byggð í Skarðshlíðarhverfi og Vallahverfi að hluta. Nemendur í
1. – 5. bekk hófu skólagöngu sína í Skarðshlíðarskóla haustið 2018 og nú í
haust bætast við nemendur í 6. – 8. bekk. Gert er ráð fyrir að sumarið 2020
verði húsnæði skólasamfélagsins í Skarðshlíð fullbyggt og hýsi heildstæðan grunnskóla
frá 1. – 10. bekk fyrir 400-500 nemendur, fjögurra deilda leikskóla fyrir um
80-90 nemendur, tónlistarskóla sem getur annað allt að 200 nemendum og
íþróttahús fyrir bæði skólastigin. Berglind Kristjánsdóttir er leikskólastjóri Skarðshlíðarleikskóla
og hefur sinnt því hlutverki síðustu mánuðina við undirbúning og skipulag
skólastarfsins ásamt því að ráða til sín öflugan hóp starfsfólks. Í leikskólastarfinu
verður lögð áhersla á lýðræði, frumkvæði og lífsgleði í daglegum samskiptum og
að efla leikni og færni í gegnum leik í anda Uppeldis til ábyrgðar og Fjölgreindarkenningar
Howards Gardners.

Fyrstu íbúarnir eru fluttir inn í Skarðshlíðina

Fjöldi íbúa á Völlunum í
Hafnarfirði hefur vaxið svo um munar hin síðustu ár og hefur fjölgun samhliða uppbyggingu
á nýju hverfi í Skarðshlíð kallað á aukna þjónustu og uppbyggingu innviða á
svæðinu. „Fyrstu íbúarnir í Skarðshlíð
fluttu inn nú í sumar og er ánægjulegt að hugsa til þess að bæði nýr grunnskóli
og leikskóli, og innan skamms íþróttamiðstöð og tónlistarskóli, mæti nýbúum
hverfisins. Þannig mun hverfið að einhverju leyti byggjast upp í kringum öflugt
samstarf samfélags, skóla, tónlistar og hreyfingar hér í Skarðshlíðinni og
mynda þannig grunnstoðir sem eru hverju hverfi mjög mikilvægar og til þess
fallnar að gera það einstakt. Ég vænti þess að innan skamms þá verði
Skarðshlíðarhverfið ekki bara eitt af bestu byggingarsvæðum á
stór-höfuðborgarsvæðinu heldur einnig eitt vinsælasta búsetusvæðið“
sagði
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, við opnun leikskólans í veðurblíðunni
fyrr í dag. 

Á myndinni hér að ofan má sjá hluta af starfsmannahópi í nýjum leikskóla.

Ábendingagátt