Nýr og stærri samningur við Samtökin ´78

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Samtökin ´78 hafa gert með sér nýjan samning um fræðslu, ráðgjöf og stuðning til handa nemendum og starfsfólki sveitarfélagsins sem starfa með börnum og ungmennum í sínu daglega skóla- og frístundastarfi. Nýr samningur er víðtækari og stærri og nær nú líka til starfsfólks leikskóla og stuðnings við fagstarf á hinseginhittingum í félagsmiðstöðinni Vitanum í Lækjarskóla.

Hafnarfjarðarbær og Samtökin ´78 hafa gert með sér nýjan samning um fræðslu, ráðgjöf og stuðning til handa nemendum og starfsfólki sveitarfélagsins sem starfa með börnum og ungmennum í sínu daglega skóla- og frístundastarfi. Sveitarfélagið hóf samstarf við samtökin um fræðslu í alla grunnskóla bæjarins árið 2015. Nýr samningur er víðtækari og stærri og nær nú líka til starfsfólks leikskóla og stuðnings við fagstarf á hinseginhittingum í félagsmiðstöðinni Vitanum í Lækjarskóla.

Virkt samtal og samstarf við samtökin hafa skilað góðum árangri

Meginmarkmið samnings er að aðlaga og auka þjónustu við nemendur og starfsfólk með fræðslu um málefni hinsegin fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda. Samtal og gott samstarf við Samtökin ´78 undanfarin ár hafa skilað haldbærri og mikilvægri þekkingu og auknum skilningi á mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum í hafnfrsku skólasamfélagi og þróun á fræðslu um málefni hinsegin fólks í takti við tíðarandann. Undirritun á nýjum og stærri samningi er samstarfsaðilunum því mikið fagnaðarefni.

Árný Steindóra Steindórsdóttir sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðarbæjar og Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri samtakanna ´78 handsala nýjan samning.

Árný Steindóra Steindórsdóttir sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðarbæjar og Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri Samtakanna ´78 handsala nýjan samstarfssamning.

Nýr samningur felur meðal annars í sér eftirfarandi:

  • Nýtt starfsfólk grunnskóla fær fræðslu um kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni fólks
  • Starfsfólk leikskóla fær fræðslu um hinsegin málefni tengd börnum á leikskólaaldri
  • Hafnfirsk ungmenni fá aðgang að ráðgjöf Samtakanna ´78 án endurgjalds og tækifæri til að kynnast þjónustu samtakanna
  • Allir nemendur í 8. bekkjum grunnskólanna fá fræðslu um þjónustu samtakanna
  • Sérstök fræðsla fyrir starfsfólk félagsmiðstöðvanna í Hafnarfirði
  • Starfsfólk hinsegin hittinga fá ráðgjöf vegna starfsemi fyrir hinsegin ungmenni
  • Sérstök fræðsla og kynning á Samtökunum ´78 fyrir hinsegin ungmenni

Aukin þekking og opin um ræða um hinsegin málefni

Fræðsla til handa starfsfólki sveitarfélagsins miðar að því að efla starfsfólk enn frekar til að þekkja, skilja og ræða málefnis hinsegin fólks í skólastarfi í Hafnarfirði. Rannsóknir sýna að skilningur og aukin þekking dragi úr einelti í garð hinsegin nemenda, auki lífsgæði þeirra og hvetji þá til að blómstra á eigin forsendum og nýta hæfileika sína. Miðað er við að samningurinn sé endurskoðaður árlega og uppfærður í takti við tíðarandann og nýjar forsendur ef við á.

Ábendingagátt