Nýr ratleikur fyrir börn við Hvaleyrarvatn

Fréttir

Níu stöðva ratleikur prýðir nú svæðið við Hvaleyrarvatn. Ratleiknum við Hvaleyrarvatn er ætlað að gera göngu barnafjölskyldna í kringum vatnið enn líflegri og vekja athygli á áhugaverðum stöðum.

Já, nú verður fjör við Hvaleyrarvatn

Níu stöðva ratleikur prýðir nú svæðið við Hvaleyrarvatn. Leikurinn er settur upp af Hönnunarhúsinu ehf. fyrir Heilsubæinn Hafnarfjörð. Maðurinn á bakvið hönnunina er Guðni Gíslason, sem ritstýrir meðal annars Fjarðarfréttum.

Ratleiknum við Hvaleyrarvatn er ætlað að hvetja til göngu í kringum vatnið og vekja athygli á áhugaverðum stöðum. Einnig að gefa foreldrum tækifæri á hressilegri samveru með börnum sínum. Leiðin frá fyrsta merki til þess níunda er um það bil 2,2 km og hringurinn í heild er um 2,7 km.

Tilvalið að skoða sig um í leik

„Hringurinn þarf ekki að taka meira en hálftíma,“ segir Guðni. „Hins vegar er tilvalið að skoða meira í leiðinni, lesa vel um Hvaleyrarselið, skoða fleiri tré í stóra trjásýnilundinum, ganga inn í skóginn og njóta lífsins.“

Guðni valdi staðina níu. „Fyrsta merkið er við bílastæðið þar sem flestir koma. Á merkinu er QR-kóði sem vísar inn á vefsíðu leiksins þar sem finna má nánari upplýsingar,“ segir hann en tekur þó fram að í rauninni megi byrja hvar sem er. „Næsta merking er í Paradísarlundinum og þar sagt frá honum. Þriðja merkið er við birkiskóg ekki langt undan.“ Merkin megi svo einnig finna við sandströndina, trjásýnilundinn, skátasvæðið, Systkinalund, Riddaralund og Hvaleyrarsel.

Nýjar leiðir, önnur sjónarhorn

„Já, markmiðið er að hvetja barnafjölskyldur til að ganga um svæðið. Þarna eru fjölmargir göngustígar og með ratleiknum er fólk hvatt til að skoða svæðið og ganga inn í skóginn,“ segir hann. „Nú er að finna merkin en líka að skoða sig um.“

Guðni segir að þótt ratleikurinn sé ætlaður krökkum sé hann árangursríkari séu fullorðnir með þeim og skýri út. Hann er svo sannarlega ekki að gera ratleik í fyrsta skipti. Guðni stendur að Ratleik Hafnarfjarðar sem verður nú settur upp í 27. skipti og er hann að leggja hann í 17. sinn. „Sá ratleikur er miklu stærri og nær yfir allt bæjarlandið. Honum fylgir frítt ratleikskort sem vonandi kemur úr prentun í næstu viku.“

Já, þetta er svo sannarlega gaman saman. Við hvetjum fjölskyldur til að prófa sig áfram í fjölskylduratleiknum við Hvaleyrarvatn.

Nánar um ratleikinn hér

 

Ábendingagátt