Nýr samningur um rekstur og umsjón á svæði Sörla

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Hestamannafélagið Sörli skrifuðu nýverið undir samning um umsjón og rekstur á íþróttasvæði og húsnæði félagsins. Samningurinn nær til hluta af rekstri á íþrótta- og útivistarsvæðisvæði Sörla, s.s. skeið- og hlaupabrauta, girðinga, reiðskemmu, félagshestshúss, mannvirkja á svæðinu og bílastæða. Forsendur fyrir framlagi til rekstrar eru byggðar á rauntölum úr rekstri liðinna ára. Samningurinn gildir til 31. desember 2028.

Samningurinn gildir til 31. desember 2028

Hafnarfjarðarbær og Hestamannafélagið Sörli skrifuðu nýverið undir samning um umsjón og rekstur á íþróttasvæði og húsnæði félagsins. Samningurinn nær til hluta af rekstri á íþrótta- og útivistarsvæðisvæði Sörla, s.s. skeið- og hlaupabrauta, girðinga, reiðskemmu, félagshestshúss, mannvirkja á svæðinu og bílastæða. Forsendur fyrir framlagi til rekstrar eru byggðar á rauntölum úr rekstri liðinna ára. Samningurinn gildir til 31. desember 2028. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Atli Ingólfsson formaður Hestmannafélagsins Sörla skrifuðu undir samninginn í félagshesthúsinu vinsæla í faðmi hesta og barna.

Félagshesthús fyrir 9-18 ára

Hluti af samningi nær til reksturs á félagshesthúsi Sörla sem ætlað er börnum á aldrinum 9-18 ára og felur hlutur Hafnarfjarðarbæjar í sér 50% kostnaðarþátttöku. Markmið félagshesthúss er að auðvelda börnum sem hafa ekki aðgang að hestum og hesthúsi aðgang að íþróttinni. Sörli setur sér verklagsreglur um verkefnið þannig að sem flest börn fái tækifæri á að stunda íþróttina. Skipulagt starf í félagshesthúsi er að lágmarki tvisvar sinnum í viku frá kl. 15 -18, níu mánuði ársins. Einnig geta börn leigt pláss í félagshesthúsi allt árið um kring og sinnt hestunum sínum alla daga ársins. Öll börn geta leitað til umsjónarmanna félagshúss. Hestamannafélagið Sörli auglýsir hið minnsta einu sinni á ári starfsemi félagshesthússins auk þess að hafa á áberandi stað á heimasíðu sinni kynningu um starfið. Sörli mun bjóða upp á opið hús í félagshesthúsi að lágmarki einu sinni á ári og opna þannig á tækifæri barna og ungmenna til að kynnast ævintýraheimi íslenska hestsins. Byrjendum er boðið upp á aðstoð við að stíga sín fyrstu skref undir handleiðslu leiðbeinenda, fara á hestbak, læra undirstöðuatriði við umhirðu og umgengni við hest og fá þannig raunverulega innsýn í hvað í því felst að halda hest. Félagshesthús Sörla er starfrækt við Sörlaskeið 24, í rúmgóðu og mjög hentugu hesthúsi, þar sem einnig er innangengt í litla reiðhöll.

Sörli hlaut Æskulýðsbikar LH haustið 2022

Hin eftirsóttu verðlaun, Æskulýðsbikar Landsþings hestamanna, féllu í skaut Sörla haustið 2022 en verðlaunin eru afhent því félagi sem hefur þótt skara fram úr með æskulýðsstarfi sínu og talið er að skili sér í öflugum hestamönnum til framtíðar. Er hér um að ræða eina þá æðstu viðurkenningu sem hægt er að hljóta fyrir æskulýðsstarf í faginu. Framtíðargrasrót félaganna myndast í unga fólkinu og  æskulýðsstarfið því talið eitt mikilvægasta starf hvers félags. Hestamannafélagið Sörli hlaut viðurkenninguna fyrir mjög metnaðarfullt og öflugt starf.

Ábendingagátt