Nýr skólastjóri grunnskóla í Skarðshlíð

Fréttir

Ingibjörg Magnúsdóttir, deildarstjóri í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, hefur verið ráðin skólastjóri við grunnskóla í Skarðshlíð. Ingibjörg er grunnskólakennari að mennt, hefur lokið meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum og diplómu í opinberri stjórnsýslu.

IngibjorgMagnusdottir

Ingibjörg Magnúsdóttir, deildarstjóri í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, hefur verið ráðin skólastjóri við grunnskóla í væntanlegum skóla í Skarðshlíð inn af Völlunum í Hafnarfirði. Nýr grunnskóli í Skarðshlíð mun taka til starfa í haust, fyrst í bráðabirgðahúsnæði í safnaðarhúsnæði Ástjarnarsóknar og frá hausti 2018 í nýrri skólabyggingu í Skarðshlíð.

 

Ingibjörg er grunnskólakennari að mennt, hefur lokið meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum og er að ljúka diplómu í opinberri stjórnsýslu. Hún kenndi í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu frá 1997-2008 þegar hún tók við deildarstjórastöðu í Hraunvallaskóla sem hún sinnir í dag. Hún hefur þannig fylgt uppbyggingu Hraunvallaskóla og mun nú taka aftur þátt í slíku verkefni sem skólastjóri nýs skóla. Ingibjörg kemur til starfa þann 1. apríl við að undirbúa skólastarf næsta vetrar.

Ný skólabygging í Skarðshlíð er í undirbúningi. Framundan er útboð í hönnun og byggingu skólans sem gert er ráð fyrir að verði byggður í 2-3 áföngum þar sem sá fyrsti verði tilbúinn haustið 2018 líkt og fyrr var getið, grunnskólahluti. Í skólabyggingunni er einnig gert ráð fyrir leikskóla og sérstakri aðstöðu fyrir tónlistarkennslunám samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla sem verði útibú frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Þá verður íþróttaaðstaða í skólanum og einnig aðstaða fyrir tómstundastarf nemenda.

Ingibjörg er boðin velkomin til starfa í spennandi verkefni við að stýra nýjum grunnskóla í Skarðshlíð.

Ábendingagátt