Nýskipan lífeyrismála – bókun

Fréttir

Bókun um nýskipan lífeyrismála var lögð fram á fundi bæjarráðs í morgun þar sem ráðið harmar að ekki skuli hafa tekist að ná niðurstöðu um nýskipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. 

Meðfylgjandi bókun var lögð fram á fundi bæjarráðs nú í
morgun. 

Bæjarráð Hafnarfjarðarkaupstaðar harmar að ekki skuli hafa tekist að ná
niðurstöðu um nýskipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Í stað þess að mæta
halla lífeyrissjóðanna með skuldayfirlýsingum sem kæmu til greiðslu á næstu
þrjátíu árum stefnir að óbreyttu í að sveitarfélögin þurfi að standa undir
hækkun mótframlaga í þessa lífeyrissjóði um 3,6-4,5%. Viðbótarlaunakostnaður
sveitarfélaga vegna þessa á næsta ári nemur um 3,5 ma.kr. Heildarframlög í
þessa opinberu lífeyrissjóði munu því með mótframlagi starfsmanna verða
19,1-20,8% af launum. Þessi aukni launakostnaður mun leiða til þess að mörg
sveitarfélög neyðast til að draga til baka áform um framkvæmdir og aukna
þjónustu á næstu árum og svigrúm þeirra til að standa undir launahækkunum næstu
árin verður mjög skert. Það sé einnig umhugsunarefni þegar um fimmtungi
launakostnaðar er varið til að standa undir launum starfsmanna eftir starfslok
í stað þess að greiða hluta þeirra jafnharðan til starfsmanna og auka þannig
samtíma ráðstöfunartekjur þeirra. Þetta á sérstaklega við um ungt fólk sem með
ærnum tilkostnaði þarf að tryggja sér öruggt húsnæði fyrir sig og sína snemma á
lífsleiðinni. Bæjarráð Hafnarfjarðarkaupstaðar hvetur alþingsmenn, nýja ríkisstjórn
og samningsaðila til að taka þetta mál upp aftur sem allra fyrst eftir
kosningar og ljúka því fyrir næstu áramót svo ekki þurfi að koma til þeirra
hækkunar á mótframlagi í opinbera lífeyrissjóði sem verður að veruleika 1.
janúar 2017 að óbreyttu.

Hér má nálgast fundargerð frá fundi bæjarráðs í morgun  

Ábendingagátt