Nýsköpun í atvinnumálum fatlaðs fólks

Fréttir

Á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðar þann 11. september 2015 var samþykkt að leggja fjármagn í tilraunaverkefni til eins árs í nýsköpun í atvinnumálum fatlaðs fólks í Hafnarfirði. 

Á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðar þann 11. september 2015 var samþykkt að leggja fjármagn í tilraunaverkefni til eins árs í nýsköpun í atvinnumálum fatlaðs fólks í Hafnarfirði. Verkefnið er unnið í samráði við Vinnumálastofnun.

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður fjölskylduráðs segir að sett verði á fót tilraunasmiðja með það að markmiði að skapa fötluðu fólki aðstæður til að vinna að nýsköpun og nýjum verkefnum. „Það er mikil þörf fyrir brú milli náms og atvinnulífs og hér verður horft sérstaklega til þeirrar tengingar. Við viljum fara nýjar leiðir í virkni og atvinnuþátttöku fatlaðs fólks sem miða að því að breyta viðhorfum og vinnufyrirkomulagi í þjónustu við fatlað fólk í Hafnarfirði.“ Segir Guðlaug.

Stefnt er að því að tengja verkefnið við verkefni vinnumálastofnunar „Að virkja hæfileikana, alla hæfileikana“  og fá þannig  spennandi verkefni við hæfi hvers og eins.  Brúa á bilið á milli útskriftar úr námi og yfir í vinnu á almennum vinnumarkaði fyrir þá sem stefna á slíkt. Verkefninu er ætlað að auka valdeflingu fatlaðs fólks með því að hafa val, vera þátttakendur á vinnumarkaði og hafa áhrif á eigið líf.

„Verkefnið er nú þegar hafið hjá okkur, fimm einstaklingar eru mættir til starfa og við viljum hvetja fyrirtæki og vinnustaði í bænum til að taka þátt í þessu verkefni með okkur“ segir Guðlaug.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur fari meðal annars á vinnustaði og vinni þar að ákveðnum, afmörkuðum verkefnum undir leiðsögn starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar. Einnig munu þau fá fræðslu og vinna að nýsköpunarverkefnum sem þau hafa áhuga á að setja á fót.

Fyrirtækjum sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu er bent á að hafa samband við Þórdísi Rúriksdóttur verkefnastjóra á netfangið 
thordisru@hafnarfjordur.is.

Ábendingagátt