Nýsköpun í atvinnumálum fatlaðs fólks

Fréttir

Nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnið Geitungarnir fór af stað í september á þessu ári. 

 

Nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefnið Geitungarnir fór af stað í september á þessu ári og er óhætt að segja að mikil gleði sé meðal aðstandenda og ekki síður þátttakenda sem hafa síðustu mánuði verið í starfsnámi, búið til söluvörur fyrir Jólaþorpið, haldið opið kaffihús og haldið úti bloggi.  Sex ungmenni hafa tekið virkan þátt í þjónustuúrræðinu sem miðar að því að auka sveigjanleika í þjónustu við fatlað fólk varðandi atvinnu og félagslega virkni.

Hafnarfjarðarbær sótti um styrk til nýsköpunar í atvinnumálum fatlaðs fólks til Velferðarráðuneytis og fór í september á þessu ári af stað með nýtt verkefni í samstarfi við Vinnumálastofnun. Verkefnið miðar að því að auka sveigjanleika í þjónustu við fatlað fólk varðandi atvinnu og félagslega virkni og að fatlað fólk fái tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu og það á eigin forsendum. Markmið verkefnis er að auka nýsköpunar- og frumkvöðlastarf meðal fatlaðs fólks með  gildisaukandi félagslegu hlutverki í starfi og vinna þannig að breyttu viðhorfi samfélagsins til fatlaðs fólks. Verkefnið fékk nafnið Geitungarnir og var nafnið valið af notendum þjónustunnar á þeirra fyrsta fundi. Fjögur ungmenni byrjuðu í úrræðinu og eru þau nú orðin sex talsins en von er á tveimur til viðbótar eftir áramót. Sex ungmenni koma úr Hafnarfirði og tvö frá Kópavogi. Allt eru þetta ungmenni sem nýlega hafa lokið framhaldsskóla og er vinnutími þeirra hjá Geitungunum frá  kl. 9 til kl. 12. 

 
Handverk Geitunga til sölu í Jólaþorpi

Starfsþjálfun, nýsköpun og fræðsla

 Á haustönn hafa ungmennin fengið starfsþjálfun í Samkaupum og Byko þrjá daga í viku og verið tvo daga í Ungmennahúsi Hafnarfjarðar að vinna að nýsköpunarverkefnum. Samhliða hafa þau fengið kynningu frá Rauða krossinum á m.a. sjálfboðaliðastarfi hans sem og fjármálafræðslu frá Íslandsbanka. Nýsköpunarvinnan fól í sér að búa til söluvörur sem hægt væri að selja á opnu húsi og í Jólaþorpi Hafnarfjarðar helgarnar 3.-5. des og 12.-13. desember. Einnig var gerð tilraun með opið kaffihús og komu hátt í 60 manns í kaffi. Ungur maður innan hópsins hefur haldið úti
bloggi (Opnast í nýjum vafraglugga)  og skrifaði fréttir af Geitungunum á Facebook síðu hópsins. Hann hefur verið gerður af upplýsingastjóra hópsins og er í sambandi við Fjarðarpóstinn þegar eitthvað stendur til hjá Geitungunum.

Aukin áhersla á atvinnuþátttöku á nýju ári

 Eftir áramót verður aukin áhersla lögð á atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði  og fræðslu í formi fyrirlestra og spjalls. Einnig er stefnt á að endurtaka opið kaffihús og jafnvel selja súpu í hádeginu. Fleiri fyrirtæki eru tilbúin til samstarfs eftir áramót með starfsþjálfun fyrir ungmennin eða alls sex vinnustaðir. Sú fræðsla sem þegar er komin á dagskrá á vorönn snýr að heilsulæsi, sjálfsvitund og sjálfsstyrkingu. Verið er að skoða möguleikann á því að sækja um ungmennaskipti fyrir hópinn hjá Evrópu Unga fólksins með það í huga að geta skoðað spennandi og flott vinnuúrræði í Danmörku eða Svíþjóð og fengið þannig hugmyndir og innblástur í starfið. 

Ábendingagátt