Nýsköpun í búsetuþjónustu við fatlað fólk

Fréttir

Tímamótasamningur sem undirritaður var í upphafi árs 2019 er orðinn að veruleika með flutningi íbúa á ný og falleg heimili sín í búsetukjarna að Stuðlaskarði í Hafnarfirði. Þjónustusamningur Hafnarfjarðarbæjar við rekstrarfélagið Vinabæ á sér ekki fordæmi og felur í sér aðlagaða og sérhæfða búsetuþjónustu þar sem notendur sjálfir hafa bein áhrif á áherslur og stefnu í veittri þjónustu. Íbúarnir, sem jafnframt eru miklir og góðir vinir, fluttu inn á dögunum beint úr foreldrahúsum.

Fyrsti búsetukjarni sinnar tegundar í landinu

Tímamótasamningur sem undirritaður var í upphafi árs 2019 er orðinn að veruleika með flutningi íbúa á ný og falleg heimili í búsetukjarna að Stuðlaskarði í Hafnarfirði. Þjónustusamningur Hafnarfjarðarbæjar við rekstrarfélagið Vinabæ á sér ekki fordæmi og felur í sér aðlagaða og sérhæfða búsetuþjónustu þar sem notendur sjálfir hafa bein áhrif á áherslur og stefnu í veittri þjónustu. Íbúarnir, sem jafnframt eru miklir og góðir vinir, fluttu inn á dögunum beint úr foreldrahúsum. 

IMG_2550

Allir sex íbúarnir tóku fagnandi á móti fulltrúum bæjarins og fleiri gestum þegar búsetukjarninn var opnaður formlega. 

„Þessi stund og þetta framtak hóps einstaklinga í samstarfi við bæinn sinn er gott dæmi um framþróun og nýjungar í þjónustu við fatlað fólk sem eru til þess fallnar að tryggja jafnrétti til búsetu á forsendum einstaklinganna sjálfra. Í þessu tilfelli er um að ræða hóp sex vina sem áttu sér þann draum að búa í návist við hvert annað og eiga heimili sem þau hanna og búa til sjálf og veitt þjónusta aðlöguð að þörfum hvers og eins. Um er að ræða ákveðna fyrirmynd að nýju og spennandi búsetuformi þar sem einstaklingarnir sjálfir hafa stjórnina og leggja línurnar. Frábær og fordæmisgefandi hugmynd er orðin að veruleika,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar við formlega opnun búsetukjarnans í gær.

IMG_2577

Íbúarnir hafa notað síðustu daga til að koma sér vel fyrir í nýjum húsakynnum.  Einstaklega hlýlegar og fallegar íbúðir sem einkennast af stíl og anda hvers og eins íbúa.  

Íbúarnir sjálfir og aðstandendur þeirra eiga rekstrarfélagið Vinabæ

Fyrsta skóflustungan að framtíðarhúsnæði hópsins var tekin í mars 2021 og nú rétt rúmu ári síðar er hópurinn fluttur inn í nýjan og glæsilegan búsetukjarna. Rekstrarfélagið Vinabær, sem er í eigu íbúanna sjálfra og aðstandenda þeirra, var stofnað í kringum framtakið og hefur það séð um byggingu á húsnæði og mat á þjónustuþörf ásamt því að koma með sterkum og skýrum hætti að ráðningu starfsfólks fyrir búsetukjarnann. Þjónustusamningur milli Vinabæjar og Hafnarfjarðarbæjar er að koma til móts við þjónustuþörf íbúanna og veita þeim bestu mögulega þjónustu í sértækri búsetu sem tök eru á að veita á hverjum tíma. Bæjarstjórn Hafnarfjarðarsamþykkti á fundi sínum 9. janúar 2019 að ganga til samninga við Vinabæ.

IMG_2537_1649322127837Fulltrúi foreldra færir Indriða Björnssyni blómvönd fyrir hans mikla og góða framlag til framkvæmdarinnar. Indriði er faðir eins íbúans og stjórnarformaður Vinabæjar sem á og rekur Stuðlaskarð. Brosandi í baksýn má sjá Margréti Völu Marteinsdóttur forstöðukonu Stuðlaskarðs.

Hafnarfjarðarbær óskar nýjum íbúum og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með nýju íbúðirnar. Mikil tilhlökkun að fylgjast með hópnum vaxa og blómstra enn meira á fallegum og nýjum stað í sjálfstæðri búsetu.  

Vinabær tekur fyrstu skóflustunguna – tilkynning á vef 23. mars 2021 

Tímamótasamningur við Vinabæ undirritaður –  tilkynning á vef 20. febrúar 2019 

Ábendingagátt