Nýsköpunarkeppnin Hakkið heldur áfram

Fréttir

Nýsköpunarkeppnin Hakkið hóf göngu sína nýverið í Hafnarfirði og var fyrsti skólinn til að taka þátt Lækjarskóli. Hakkið er nýr viðburður sniðinn að nemendum í 8. bekk og mun nýsköpunargleðin halda áfram næstu vikurnar í Hafnarfirði. Í þessari viku verður Hakkið haldið í Hvaleyrarskóla.

Besta lausnin, besta teymið og besta kynningin

Nýsköpunarkeppnin Hakkið hóf göngu sína nýverið í Hafnarfirði og var fyrsti skólinn til að taka þátt Lækjarskóli. Hakkið er nýr viðburður sniðinn að nemendum í 8. bekk og fá allir þátttakendur viðurkenningarskjal auk þess sem verðlaun eru veitt fyrir þrjá flokka: besta lausnin, besta teymið og besta kynningin. Hakkið heldur áfram næstu vikurnar í Hafnarfirði og í þessari viku verður Hakkið haldið í Hvaleyrarskóla.

Skólar velja sér sína áskorun eða verkefni

Verkefni Hakksins í Lækjarskóla var ,,Draumahverfi unglingsins í Hafnarfirði”. Nemendur héldu 2-3 mínútna kynningu og settu fram margar skemmtilegar lausnir. „Gangstéttir“ var valin besta lausnin, besta teymið var “Starbucks á Íslandi” og besta kynningin var “hitabekkur”. Nemendur fengu í verðlaun m.a. frímiða á Subway og Omnom súkkulaði. Aðrar áhugaverðar lausnir voru áfengislaus skemmtistaður, Chunky Monkey ís, draumahverfi og drínglan, kremskegg, Ísbúð Klussu og vatnsrennibrautagarður. Hakkið tekur tvo til þrjá daga og eru það skólarnir sjálfir sem velja sér áskorun eða verkefni sem lagt er fyrir nemendur í upphafi. Síðan hlusta nemendur á fyrirlestra og fá kynningu á verkfærum og úrræðum til lausna á viðkomandi verkefni. Nemendur vinna hópavinnu og þeim gefnar nokkuð frjálsar hendur með útfærslu. Hver skóli fær einn gestafyrirlesara í heimsókn og í Lækjarskóla kom fulltrúi frá fyrirtækinu Héðni og sagði frá sínum verkefnum og hversu mikilvæg nýsköpun er í þeirra starfsemi. Héðinn veitir alla þjónustu á sviði málmiðnaðar og véltækni.

Skemmtilegt, frjálslegt og skapandi upplegg

Upplegg Hakksins er skemmtilegt, frjálslegt og skapandi og markmiðið að krakkarnir finni til sín í hlutverki hugsuða og hönnuða. Þá er mikil áhersla lögð á sjálfstæð vinnubrögð og að lausnaleitin og endanleg útkoma sé afurð og eign nemendanna. Framkvæmd Hakksins er í höndum verkefnastjóranna Margrétar Lenu og Sólveigar Rán hjá Nýsköpunarsetri Hafnarfjarðar. Þær hafa hannað námsefni sem tengist beint hæfniviðmiðum aðalnámskrár og heyrir þannig undir í hefðbundna kennslu en með aðeins öðruvísi hætti. Hakkið heldur áfram næstu vikurnar og er það Hvaleyrarskóli sem tekur á móti Hakkinu þessa vikuna.

Facebooksíða Nýsköpunarseturs Hafnarfjarðar 

Ábendingagátt