Nýsköpunarverkefnið BRÚIN kynnt á Nýsköpunardegi 2019

Fréttir

Nýsköpunardagur hins opinbera var haldinn í gær fyrir fullu húsi í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Dagskráin samanstóð af fjölbreyttum erindum og þ.á.m. kynningu á BRÚNNI sem er ný nálgun í þjónustu við leik- og grunnskólabörn í Hafnarfirði.

Nýsköpunardagur hins opinbera var haldinn í vikunni fyrir fullu húsi í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Að deginum stendur Fjármála- og efnahagsráðuneytið ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Dagskráin samanstóð af fjölbreyttum erindum og þ.á.m. kynningu á BRÚNNI sem er ný nálgun í þjónustu við leik- og grunnskólabörn í Hafnarfirði.

BRÚIN – Barn | Ráðgjöf | Úrræði

BRÚIN er ný nálgun í þjónustu við leik- og grunnskólabörn í Hafnarfirði sem unnið hefur verið að síðan í lok árs 2016. Þetta viðamikla verkefni snýr að því að finna leiðir til að bæta þjónustu við leik- og grunnskólabörn bæjarins og fjölskyldur þeirra en undanfarin ár hefur fagfólk og foreldrar lýst yfir áhyggjum af því að ekki sé nægileg markviss þjónusta við börn og unglinga með félags-, náms- og/eða geðheilbrigðisvanda á Íslandi. Haustið 2018 var farið af stað með þessa nýju nálgun og er samþætting og aukin þjónusta að fara í gegnum lausnateymi sem starfa með báðum skólastigunum. Í lausnateymi sitja fulltrúar leik- og grunnskóla, sálfræðingur/sérkennslufulltrúi frá fræðslu- og frístundaþjónustu og sérfræðingur Brúarinnar. Um er að ræða heildstæðan stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.  

Nýsköpunardagur hins opinbera

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnaði í tilefni dagsins nýja vefsíðu um opinbera nýsköpun. Í ávarpi sínu vék ráðherra m.a. að Nýsköpunarvoginni, samnorrænni könnun á stöðu nýsköpunar. Niðurstöður hennar leiða í ljós að 78% opinberra vinnustaða hér á landi hafa innleitt að minnsta kosti eitt nýsköpunarverkefni á síðastliðnum tveimur árum. Sagði Bjarni það sérstakt ánægjuefni, hversu virkir opinberir vinnustaðir væri í nýsköpun, en slík verkefni hafa í 73% tilfella skilað sér í auknum gæðum, 67% tilvika í aukinni skilvirkni og í helmingi tilvika í aukinni starfsánægju. Nýja vefsíðan er á meðal aðgerða stjórnvalda til stuðnings nýsköpunar á vegum hins opinbera. Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á nýsköpun og er aðild Ísland að yfirlýsingu OECD ríkjanna um opinbera nýsköpun, sem undirrituð var í nú maí, liður í þeirri viðleitni.

Dagskrá nýsköpunardagsins var send út í beinu streymi. Upptöku af deginum má nálgast hér að neðan, en glærur framsögumanna eru á nýja nýsköpunarvefnum: opinbernyskopun.island.is

Erindi starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar, þeirra Fanneyjar D Halldórsdóttur fræðslustjóra og Huldu Bjarkar Finnsdóttur verkefnastjóra, hefst 1:25:06

https://www.youtube.com/watch?v=v4NJccr7Pzk
Ábendingagátt