Nýtnivikan litar skóla Hafnarfjarðar

Fréttir

Evrópska nýtnivikan tók á sig skemmtilegan blæ á leikskólanum Norðurbergi nú í morgun þegar starfsmenn mættu í skiptiflíkum af hver öðrum. Nýtnivikan stendur yfir dagana 16. – 24. nóvember en má þó endast allt árið.

Evrópska nýtnivikan í fullum gangi

Evrópska nýtnivikan tók á sig skemmtilegan blæ á leikskólanum Norðurbergi nú í morgun þegar starfsmenn mættu í skiptiflíkum af hver öðrum. Bleikur jakki fékk til að mynda framhaldslíf þegar Anna Borg leikskólastjóri, tók hann að sér.

„Já, jakkinn verður áfram partur af hringrásarhagkerfinu með því að lengja líftíma hans,“ segir hún. Vikan hafi byrjað á þessum fatamarkaði starfsmanna. Svo hafi þeir fengið foreldra í lið með sér og boðið þeim að taka þátt.

„Við erum reyndar alltaf með fataskiptimarkað fyrir börnin í anddyri leikskólans“ segir Anna Borg og lýsir því hvernig þau stóðu að svona fatamarkaði upp úr hruni, þá var virkilega þörf.

„Þá gerðum við þetta í samráði við Rauða krossinn sem skaffaði kassa og föt/skó fyrir börn. Svo varð verkefnið sjálfbært, foreldrar taka úr eða setja í kassana“ lýsir hún.

Nú, dagana 16. – 24. nóvember, stendur Evrópska nýtnivikan yfir. Markmið átaksins er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.

Leikskólinn á Norðurbergi er ekki sá eini sem tekur þátt. Engidalsskóli er einnig þar á meðal, vigtar mat úr matsal næstu vikurnar og er einnig með skiptifatamarkað fyrir starfsfólk.

Þema ársins er matarsóun undir slagorðinu Það er óbragð af matarsóun!

Skiptimarkaður og umbúðasparnaður

„Já, við byrjuðum á fataskiptimarkaði, svo ýttum við á foreldrana varðandi umbúðir og gegn matarsóun,“ segir Anna Borg.

„Sjálf tek ég kassana utan af til dæmis Cheerios-pakkanum og pressa saman í búðinni og skil eftir, leyfi þeim að farga því enda flestar verslanir með flokkun,“ segir hún. „Af hverju erum við að velja grænmeti í umbúðum þegar við getum sleppt því?,“ spyr hún.

Fyrsti grænfánaleikskólinn

Anna Borg segir að lengi hafa verið unnið með gegn matarsóun í leikskólanum á Norðurbergi.

„Við erum búin að molta mat frá árinu 1998; erum með 7.450 lítra tunnur á lóðinni. Við pössum okkur að vinna gegn matarsóun með því að setja minna á diskana, fá sér oftar. Ónotað grænmeti verður að súpu og afgangur af ósnertum fiski fer í fiskibollur sem dæmi,“ nefnir hún.

„Við erum fyrsti Grænfánaleikskóli landsins,“ segir hún og lýsir því hvernig skólinn barðist fyrir því að taka þátt í verkefninu sem leiddi til þess að Landvernd sá að verkefnið hentaði leikskólum jafnvel eins og grunnskólum.

Anna Borg er sjálf mjög umhverfissinnuð. „Yfirmaðurinn verður að vera drifkrafturinn,“ segir hún. „Þetta er ástríðan mín; umhverfisvernd og flokkun, öll neysluvenja, hefðir og menning. Þetta hefur fylgt mér alla ævi.“

Móðir hennar, sem hafi komið úr sveit, hún var fyrirmyndin.  Svo hafi hún búið átta ár í Svíþjóð. „Svíar voru komnir langt á undan okkur í flokkun og loppumörkuðum þegar ég flutti heim aftur. Þar sá ég ljósið. Það var æðislegt.“

Já, leikskólinn á Norðurbergi er frábær fyrirmynd í umhverfismálum.  Umhverfisstofnun hvetur fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir, skóla og almenning til þess að leggja sitt af mörkum til að sporna gegn matarsóun með því að gefa afgöngunum gaum.

Öll hvött til að taka þátt

Umhverfisstofnun ásamt öðrum sem standa að verkefninu Saman gegn sóun, þar á meðal borginni, hefur útbúið einfalt kynningarefni og hugmyndir fyrir þau sem vilja taka þátt sem öllum er frjálst að nýta, sjá hér.

„Við hvetjum öll sem taka þátt í Nýtnivikunni í ár að deila því með okkur á Facebook síðu Saman gegn sóun eða Instagram, með því að merkja okkur eða senda skilaboð og við deilum því áfram,“ segir í hvatningartexta Umhverfisstofnunar til þátttöku.

 

Ábendingagátt