Nýtt farþegahjól fyrir fatlaða gefur og gleður

Fréttir

Nýverið rættist draumur starfsfólks og þjónustuþega Hússins í Hafnarfirði um að eignast farþegahjól. Húsið eignast hjólin fyrir tilstuðlan viðspyrnuaðgerða stjórnvalda sem ætlað var að efla félagslega þátttöku geðfatlaðra og fatlaðs fólks á tímum Covid. Í samtali starfsfólks og þjónustuþega í Húsinu var ákveðið að nýta styrkinn í verkefni sem væru til þess fallin að auka frelsi og gefa fötluðu fólki tækifæri til að upplifa og lifa lífinu lifandi. 

Draumur Hússins í Hafnarfirði um farþegahjól orðinn að veruleika

Nýverið rættist draumur starfsfólks og þjónustuþega Hússins í Hafnarfirði um að eignast farþegahjól. Húsið eignast hjólin fyrir tilstuðlan viðspyrnuaðgerða stjórnvalda sem ætlað var að efla félagslega þátttöku geðfatlaðra og fatlaðs fólks á tímum Covid. Í samtali starfsfólks og þjónustuþega í Húsinu var ákveðið að nýta styrkinn í verkefni sem væru til þess fallin að auka frelsi og gefa fötluðu fólki tækifæri til að upplifa og lifa lífinu lifandi. Hjólin verða tvö en það fyrra var afhent í vikunni og er óhætt að segja gleðin með hjólin sé mikil og upplifunin einstök og öðruvísi. 

NyttHjol

Það er samróma álit allra að hjólaferðunum fylgi mikið frelsi og frábær tilfinning.

IMG_5198

Hjólin verða til útláns til heimila og stofnana sem þjóna fötluðu fólki

Farþegahjólið, sem þegar er komið í hús, er af gerðinni Van Raam Chat bike og er rafmagnshjól sem tekur 1-2 farþega og einn hjólara. Hjólin eru hugsuð til útláns í skemmri tíma til heimila og stofnana sem þjóna geðfötluðu og/eða fötluðu fólki. Heimili (búsetukjarnar) fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði eru í dag 13 talsins og þar búa 65 einstaklingar í sjálfstæðri búsetu með mismikilli þjónustu eftir færni og getu. Annað hjól er væntanlegt í Húsið á næstunni, Veloplus hjól, sem ætlað er fyrir hjólastóla. Hjólin eru bæði tiltölulega einföld og þægileg í notkun. Fyrsta vikan á Van Raam Chat hjólinu lofar góðu og gleði þeirra sem þegar hafa prófað hjólið einskær og einlæg. Það er samróma álit allra að hjólaferðunum fylgi mikið frelsi og frábær tilfinning.

IMG_4973Eitt hjól er komið í hús og  margir farnir eru að bíða eftir hjólinu sem ætlað er fyrir hjólastóla.

Húsið hýsir fjölbreytt úrræði fyrir fatlað fólk á aldrinum 10-60 ára

Húsið í Hafnarfirði er staðsett að Suðurgötu 14 og hýsir m.a. fjölbreytt frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni á aldrinum 10-25 ára og atvinnuúrræði fyrir einstaklinga á aldrinum 20-60 ára. Þannig eru Geitungarnir atvinnuúrræði og skapandi starf fyrir 20-60 ára, Vinaskjól fjölbreytt tómstundastarf fyrir 16-20 ára og Kletturinn tómstundastarf fyrir 10-16 ára börn og ungmenni. Aðsetur hjólanna verður í Húsinu.  

Ábendingagátt