Nýtt hjúkrunarheimili á Sólvangi opnað í dag

Fréttir

Nýtt og glæsilegt 60 rýma hjúkrunarheimili í Hafnarfirði, sem leysir af hólmi gamla Sólvang var formlega opnað í dag. Ráðgert er að fyrstu íbúarnir flytji inn í byrjun ágúst. Gamli Sólvangur mun áfram gegna hlutverki í þágu aldraðra og þegar upp er staðið fjölgar hjúkrunarrýmum á Sólvangi úr 59 í 93.

Nýtt og glæsilegt 60 rýma hjúkrunarheimili í Hafnarfirði, sem leysir af hólmi gamla Sólvang var formlega opnað í dag. Ráðgert er að fyrstu íbúarnir flytji inn í byrjun ágúst. Gamli Sólvangur mun áfram gegna hlutverki í þágu aldraðra og þegar upp er staðið fjölgar hjúkrunarrýmum á Sólvangi úr 59 í 93.

„Þetta er stór dagur fyrir Hafnfirðinga og nærsveitunga og gleðidagur fyrir okkur öll sem brennum fyrir bættri þjónustu og aðbúnaði fyrir aldraða“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við opnun heimilisins í dag. Nýi Sólvangur er byggður samkvæmt svokallaðri leiguleið sem felur í sér að Hafnarfjarðarbær hefur annast framkvæmdina að öllu leyti. Fjármögnun framkvæmdanna byggist á samningi milli ríkisins og bæjarfélagsins um greiðslur til fjörutíu ára. Hlutdeild ríkisins svarar til 85% af heildarkostnaði á móti 15% sveitarfélagsins. Hjúkrunarheimilið er byggt í samræmi við kröfur og viðmið um byggingu hjúkrunarheimila þar sem stærð, skipulag og aðbúnaður eiga að stuðla að sem bestri þjónustu við íbúa heimilisins. Sóltún öldrunarþjónusta ehf. mun annast rekstur nýja hjúkrunar- heimilisins og er það niðurstaða útboðs sem Sjúkratryggingar Íslands efndu til. Sóltún mun einnig sjá um rekstur 14 dagdvalarrýma sem rekin eru í húsnæði gamla Sólvangs.

Hjúkrunarrýmum á Sólvangi fjölgar um 34

Síðastliðið ár óskuðu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eftir heimild heilbrigðisráðherra til að nýta húsnæði gamla Sólvangs undir 33 hjúkrunarrými til viðbótar þeim 60 sem verða í nýbyggingunni. Erindið féll vel að áformum stjórnvalda um stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2023 og veitti ráðherra umbeðna heimild. Horft var til þess að brýn þörf er fyrir fleiri hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu og eins mun fjölgunin styrkja rekstrarhagkvæmni hjúkrunarheimilisins. Þá er ljóst að þótt ráðast þurfi í umtalsverðar endurbætur á húsnæðinu munu breytingarnar útheimta mun minna fjármagn en ef um nýbyggingu væri að ræða. „Við höfum um nokkurra ára skeið lagt á það áherslu að heildræn þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Hafnarfirði byggist upp á Sólvangssvæðinu. Dagurinn í dag markar tímamót í þeirri framtíðarsýn. Dagdvöl aldraðra er nú starfandi á neðstu hæð gamla Sólvangs og húsnæðið er einnig tilvalið fyrir sjúkraþjálfun, félagsstarf eldri borgara og mötuneyti svo fátt eitt sé nefnt. Gamli Sólvangur mun áfram verða nýttur í þágu eldri borgara og áður en langt um líður verður ráðist í endurbætur á húsnæðinu. Það er mjög ánægjulegt að sjá áformin um öldrunarmiðstöð á þessu fallega svæði verða að veruleika og að Sólvangur hýsi til framtíðar ýmis konar faglega þjónustu og þjálfun við eldri borgara“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Tímabundin lausn fram að opnun nýs hjúkrunarheimilis við Sléttuveg

Mikill skortur er á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en veruleg breyting til hins betra er í sjónmáli með opnun nýs hjúkrunarheimilis með 99 hjúkrunaríbúðum við Sléttuveg í Fossvogi. Áður en ráðist verður í gagngerar endurbætur á gamla Sólvangi hefur því verið ákveðið að fela Sóltúni ehf. að reka þar tímabundið 38 hjúkrunarrými fram að opnun heimilisins við Sléttuveg.

Ábendingagátt