Hlaðvarp Bókasafns Hafnarfjarðar – fjölbreytt og fróðlegt

Fréttir

Nýtt hlaðvarp Bókasafns Hafnarfjarðar hefur í grunninn þann góða tilgang að koma á framfæri öllu því efni sem starfsfólki bókasafnsins þykir áhugavert. Hópur starfsfólks stendur á bak við þættina sem munu án efa verða fjölbreyttir og fróðlegir.

Nýtt hlaðvarp Bókasafns Hafnarfjarðar hefur í grunninn þann góða tilgang að koma á framfæri öllu því efni sem starfsfólki bókasafnsins þykir áhugavert og er til þess fallið að vekja umræðu og umfjöllun um áhugaverða málaflokka og mál sem m.a. tengjast safnkosti bókasafnsins, viðburðum á vegum safnsins eða öðru því sem í gangi er í kringum bókasafnið og Hafnarfjörð. Um er að ræða nýja og spennandi viðbót við þjónustu safnsins og er stefnan að lánþegar geti pantað tíma og fengið afnot af rýminu til að taka upp eigið talefni. Hópur starfsfólks stendur á bak við þættina sem munu án efa verða fjölbreyttir og fróðlegir. Einnig geta áhugasamir óskað eftir umfjöllun um ákveðið efni. 

Tveir fyrstu þættirnir fjalla um fótboltabækur

Tveir þættir eru þegar komnir í loftið. Annar til kynningar á hlaðvarpinu og hinn um fótboltabækur en á síðustu misserum hefur Bókasafn Hafnarfjarðar unnið að því að kaupa inn fleiri og fjölbreyttari fótboltabækur fyrir gesti safnsins. Upplýsingafræðingurinn Halldór Marteinsson, einn af ritstjórum Rauðu djöflanna og Ljónavarpsins, hefur séð um það verkefni en hann er jafnframt umsjónarmaður þessara fyrstu þátta. Þættirnir um fótboltabækur verða tveir og ræðir Halldór við rithöfunda um fótboltabækurnar þeirra og fótboltaskrif almennt. Fyrri þátturinn er kominn út og sá seinni kemur út í næstu viku. 

HladvarpBokasafnsHafnarfjardar

Í þessum fyrsta þætti um fótboltabækur ræðir Halldór við Víði Sigurðsson, blaðamann á mbl.is og ritstjóra Íslenskrar knattspyrnu, og James Montague. Montague hefur ferðast um allan heim til að skrifa um fótbolta frá hinum ýmsu hliðum. Hann er líka mikill Íslandsvinur eins og komið er inn á í þættinum. Hægt er að finna þáttinn á Spotify, öllum helstu hlaðvarpsveitum og með því að smella á þennan hlekk

Rabbrýmið verður lánþegum aðgengilegt – nánar auglýst síðar

Rabbrýmið er opið hlaðvarpsstúdíó Bókasafns Hafnarfjarðar þar sem bækur og blaður hittast yfir hangandi hljóðnemum og allir eru til í spjall. Rýmið verður opið öllum þeim sem eru með gilt bókasafnskort og verður hægt að panta upptökutíma í gegnum bæði heimasíðu og Facebooksíðu Bókasafns Hafnarfjarðar. Í Rabbrýminu er allur búnaður sem þarf til upptöku og vinnslu hlaðvarps til staðar. Fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref er starfsfólk til staðar til að fara yfir formsatriðin og aðstoða fyrst um sinn.

Skúffuskáld, skoðanapésar, grúskarar, bókabéusar og allir þeir sem hafa ótakmarkaða þörf til að koma sér út í kosmósið – verða sannarlega hjartanlega velkomnir í Rabbrýmið.

Allar frekari upplýsingar og fyrirspurnir má nálgast gengum netfangið: hladvarp@hafnarfjordur.is   

Ábendingagátt