Nýtt og einfaldara leiðanet Strætó í Hafnarfirði

Fréttir

Nýtt og einfaldara leiðanet hjá Strætó í Hafnarfirði tók gildi fyrr í sumar þegar leið 19 og lengri leið 21 tóku við af leiðum 22, 33, 34, 43 og 44 sem hættu akstri. Nýtt fyrirkomulag ætti að henta betur fyrir stóran hóp notenda Strætó sem sækja skóla eða vinnu innan og/eða utan Hafnarfjarðar.

Íbúar, nemendur, starfsfólk og aðrir Strætónotendur í nútíð og framtíð takið eftir!

Nýtt og einfaldara leiðanet hjá Strætó í Hafnarfirði tók gildi fyrr í sumar þegar leið 19 og lengri leið 21 tóku við af leiðum 22, 33, 34, 43 og 44 sem hættu akstri. Þessar breytingar rétta úr leiðum Strætó í Hafnarfirði í takti við Borgarlínuverkefnið á sama tíma og leiðirnar eru beinni og ferðatíminn styttri. Nýtt fyrirkomulag ætti því að henta betur fyrir stóran hóp notenda Strætó sem sækja skóla eða vinnu innan og/eða utan Hafnarfjarðar. Og ekki síður fyrir eldri nemendur grunnskóla sem stunda sínar tómstundir og æfingar víðsvegar um bæinn. 

Straeto-nytt-leidanet-2020-A3Svona lítur nýtt leiðakerfi Strætó í Hafnarfirði út . Nýtt leiðanet tók gildi 14. júní 2020. 

Beinni leiðir og styttri ferðatími

Breytingarnar tóku gildi um miðjan júní eftir langa yfirlegu og gott samtal við notendur Strætó. Leið 19 ekur skv. 15 mínútna tíðni á annatímum og 30 mínútna tíðni utan annatíma. Leið 21 mun áfram aka skv. 30 mínútna tíðni. Tengingar við leiðir 1 og 55 verða til staðar í Firði.  Breytingarnar eru til þess fallnar að henta betur fyrir stóran hóp notenda en í einhverjum tilfellum þurfa notendur Strætó nú að ganga lengri leið á næstu stoppistöð. Kerfið er ávallt í endurskoðun og vonir standa til þess að þessar breytingar verði til þess að fleiri hópar einstaklinga sjái virði og hag í því að nota Strætó sem sinn aðal samgöngumáta, hvort sem er innan sveitarfélagsins eða á ferð sinni um höfuðborgarsvæðið. 

Senda inn ábendingu í gegnum ábendingagátt Hafnarfjarðarbæjar

Stór umbótaverkefni framundan

Um er að ræða fyrsta áfanga í hinu stóra Borgarlínuverkefni og spilar leið 1 þar stóran þátt, sem hefst og endar á Völlunum. Á næstu árum munu almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu taka miklum breytingum. Stærstu umbótarverkefnin eru annars vegar uppbygging á Borgarlínu innviðum fyrir hraðvagnakerfi (BRT) og hins vegar endurskoðun á leiðaneti Strætó vegna uppbyggingar Borgarlínu þar sem þörf er á að aðlaga leiðanetið að Borgarlínu og nýta innviði hennar. Þannig verði stuðlað að því að almenningssamgöngukerfið virki sem ein heild. 

Ábendingagátt