Nýtt og snjallara hlutverk grenndarstöðva  

Fréttir

Grenndarstöðvar SORPU og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu munu á næstu vikum fá nýtt og snjallara hlutverk. Skynjarar verða settir í alla grenndargáma til að tryggja tímanlega losun, og málmumbúðum og gleri verður safnað á öllum grenndarstöðvum.  Í Hafnarfirði mun innleiðingin eiga sér stað 11. – 17. febrúar. Með breytingunum er tryggt að íbúar á höfuðborgarsvæðinu geti losað sig við helstu tegundir af rusli í sínu hverfi og nærumhverfi.

Tvær litlar og fjórar stórar grenndarstöðvar í Hafnarfirði

Grenndarstöðvar SORPU og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu munu á næstu vikum fá nýtt og snjallara hlutverk. Skynjarar verða settir í alla grenndargáma til að tryggja tímanlega losun, og málmumbúðum og gleri verður safnað á öllum grenndarstöðvum. Áætlað er að innleiðing á snjallgámum á grenndarstöðvum hefjist 30. janúar og standi yfir næstu vikur. Í Hafnarfirði mun innleiðingin eiga sér stað 11. – 17. febrúar. Með breytingunum er tryggt að íbúar á höfuðborgarsvæðinu geti losað sig við helstu tegundir af rusli í sínu hverfi og nærumhverfi. 

Smelltu hér til að sjá hvaða grenndarstöð er næst þér og hvaða flokkar eru á henni

Litlar og stórar grenndarstöðvar 

Við heimili eru nú þegar tunnur fyrir matarleifar, blandaðan úrgang, plast, og pappír/pappa. Gámar fyrir gler, málmumbúðir og flöskur og dósir verða á öllum grenndarstöðvum sem staðsettar verða í hverfum í nálægð við heimilin. Þessar stöðvar kallast litlar grenndarstöðvar og verða þær um 50 á höfuðborgarsvæðinu. Í Hafnarfirði eru þær tvær talsins í dag, við Fjarðarkaup og Staðarberg. Með breytingunni verður gámum fyrir gler, málm og textíl komið fyrir á þeim öllum  Sumarið 2024 stendur til að setja upp þrjár nýjar litlar grenndarstöðvar til viðbótar í Hafnarfirði þ.e. í Skarðshlíð, Áslandi 3 og á Holtinu.   

Gámar fyrir gler, málmumbúðir, flöskur og dósir, textíl, pappír og pappa, og plast verða á stórum grenndarstöðvum sem verða í öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins. Stórar grenndarstöðvar verða um 40 á höfuðborgarsvæðinu, þarf af fjórar í Hafnarfirði eða við verslunarmiðstöðina Fjörð, Nettó á Miðvangi, Tjarnarvelli og Sólvangsvegi. Í dag eiga allir íbúar að vera með flokkun á plasti og pappír við húsvegginn heima og þessar fjórar stöðvar einungis hugsaðar fyrir yfirfall þeirrar flokkunnar auk þess sem alltaf er hægt að fara með flokkunina beint á endurvinnslustöðvar Sorpu. Textíl verður auk þess safnað á öllum grenndarstöðvum á komandi misserum. Núna er textílsöfnun á forræði Rauða krossins og ólík eftir grenndarstöðvum. 

Allir flokka – líka íbúar í aukaíbúðum 

Öllum íbúum Hafnarfjarðarbæjar ber að fjórflokka heimilisúrgang í viðeigandi sorpílát og koma öðrum úrgangi á grenndar- eða endurvinnslustöðvar. Íbúar í aukaíbúðum, sem eru ekki á sér fasteignanúmeri, ber einnig að fjórflokka heimilissorp sitt en það er samkomulagsatriði leigusala og leigutaka hvort leigutaki hafi aðgengi að sorpílátum leigusala eða hafi sér ílát. Fyrir minni heimili í aukaíbúðum með tveim eða færri íbúum og hafa ekki aðgengi að sorpílátum leigusala, er tilvalið að vera með tvö tvískipt ílát, 240L ílát fyrir matarleifar og blandaðan úrgang og 240L ílát fyrir plast og pappír. Hins vegar er ráðlagt að heimili með fleiri en tvo íbúa í aukaíbúðum séu með að lágmarki tvískipt 240L ílát fyrir matarleifar og blandaðan úrgang, 240L ílát fyrir plast og 240L ílát fyrir pappír.  

Kaupa sorpílát 

Almennar upplýsingar um fjórflokkun á heimilisúrgangi 

Grenndarstöðvar í Hafnarfirði  

Takk fyrir að flokka! 

Ábendingagátt