Nýtt skólaár — grunnskólar í Hafnarfirði fyllast af börnum

Fréttir

Nýtt skólaár innan grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar hefst á mánudaginn 25. ágúst. Alls munu 4.000 börn og ungmenni setjast á skólabekk þetta haustið. Þar af hefja um 350 börn grunnskólagöngu sína.

Skólarnir fyllast af lífi!

Skólasetning í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar verður mánudaginn 25. ágúst 2025. Formlegt skólastarf nemenda hefst svo samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 26. ágúst.

Öflugt skólastarf í Hafnarfirði

Um 4.000 börn og ungmenni setjast á skólabekk þetta haustið í grunnskólunum. Þar af hefja yfir 350 börn sína grunnskólagöngu í fyrsta sinn í 1. bekk. Nánari upplýsingar um stundaskrá og tímasetningar skólasetninga í hverjum skóla má finna á vef viðkomandi skóla. Í Hafnarfirði eru 11 grunnskólar, 9 reknir af bænum en Barnaskóli Hjallastefnunnar og NÚ eru sjálfstætt starfandi og stunda um 300-350 hafnfirsk börn grunnskólanám utan grunnskóla bæjarins, þ.e. í sjálfstætt starfandi skólum, sérskólum eða í grunnskólum annarra sveitarfélaga.

Það er stórt skref í lífi hvers barns að byrja í grunnskóla. Samstarf heimilis og skóla er afar mikilvægt við slík tímamót. Hagstæð uppeldisskilyrði og gott samstarf er forsenda þess að börn og ungmenni dafni vel í skólanum og þekki styrkleika sína.

Gæðamatur í grunnskólunum

Hafnfirsk börn og starfsfólk í leik- og grunnskólum í Hafnarfirði fá gæðamáltíðir í skólunum. Hafnarfjarðarbær hefur samið við fyrirtækið Í-mat til næstu ára og fá allir skólar bæjarins og frístundaheimili sinn mat þaðan. Með samstarfinu við Í-mat tekur Hafnarfjörður mikilvægt skref í átt að heilbrigðu næringarumhverfi hafnfirskra barna.

Hádegismatur nemenda er gjaldfrjáls og ekki þarf að panta hann fyrir fram. Miðað er við að það séu tveir réttir í hádegi sem nemendur geti valið á milli; kjöt/fiskur eða grænmetisréttir og vegan þar innifalið ef við á. Valið fer fram á staðnum milli þeirra en ekki fyrir fram (svo mögulega getur annar rétturinn klárast á undan hinum svo einhverjir missi af því að hafa val um tvo rétti einhvern daginn).

Áfram geta foreldrar valið um að barn komi með morgunhressingu í skólann eða kaupi ávexti í áskrift frá Í-mat. Sömuleiðis er óbreytt með sérfæði en það er bundið læknisvottorði um ofnæmi/óþol og skal sækja um það á vef Í-mat ásamt nauðsynlegum fylgigögnum.

Þar sem umfangsmiklar breytingar eru framundan í vetur með nýjum aðila má búast við að mögulega taki tíma að koma jafnvægi á framkvæmdina og er beðið um biðlund og þolinmæði allra meðan byrjunarfasi þessara breytinga standa yfir.

Ritföng til nemenda

Hafnarfjarðarbær útvegar grunnskólanemendum áfram námsgögn þeim að kostnaðarlausu en nemendur koma nú sjálfir með eigin ritföng sem þeir þurfa að nota í skólastarfinu. Nemendur fá því stílabækur, möppur og annað slíkt hjá skólanum sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi til viðbótar við námsbækurnar.

Já, það er spenna í lofti. Börnin að komast í rútínu og lífið í Hafnarfirði að taka á sig haustlitina sína.

Ábendingagátt