Nýtt söguskilti um vinabæina Hafnarfjörð og Cuxhaven

Fréttir

Borgin Cuxhaven í Þýskalandi og Hafnarfjörður stofnuðu formlega til vinarbæjarsamstarfs á haustmánuðum 1988 og hefur það vinabæjarsamband verið mjög virkt á margan hátt æ síðan. Á dögunum var afhjúpað söguskilti um vinabæina Hafnarfjörð og Cuxhaven í Þýskalandi. Söguskiltið er staðsett við „Kugelbake“ á strandstígnum við höfnina.

Söguskilti um vinabæina Hafnarfjörð og Cuxhaven sett upp á strandstígnum við Kugelbake

Borgin Cuxhaven í Þýskalandi og Hafnarfjörður stofnuðu formlega til vinarbæjarsamstarfs á haustmánuðum 1988 og hefur það vinabæjarsamband verið mjög virkt á margan hátt æ síðan. Á dögunum var afhjúpað söguskilti um vinabæina Hafnarfjörð og Cuxhaven í Þýskalandi. Söguskiltið er staðsett við „Kugelbake“ á strandstígnum við höfnina en í tilefni af 25 ára afmæli vinabæjarsamstarfsins, árið 2013, gaf þýska borgin Hafnarfjarðarbæ fjögurra metra háa timbur eftirgerð af 30 metra háu siglingarmerki sem reist var árið 1703 við ströndina nyrst í Neðra Saxlandi þar sem áin Saxelfur (Elbe) rennur í Norðursjóinn. Kugelbake er borgarmerki Cuxhaven líkt og vitinn er merki Hafnarfjarðar og tilvalið þótti að staðsetja söguskiltið við siglingamerkið til þess að útskýra betur tilurð þess.

Skiltið var afhjúpað á dögum

Skiltið var afhjúpað á dögunum af bæjarstjóra Rósu Guðbjartsdóttur og Wilhelm Eitzen formanni vinabæjarfélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður að viðstöddum fleiri góðra gesta úr stjórn vinabæjarfélagsins. Um textagerð á skiltinu sá Björn Pétursson bæjarminjavörður og ljósmyndir á skiltinu tók Ólafur Már Svavarsson.

Rósa Guðbjartsdóttir og Wilhelm Eitzen formaður vinabæjarfélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður við nýja skiltið

Rósa Guðbjartsdóttir og Wilhelm Eitzen formaður vinabæjarfélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður við nýja skiltið.

Mjög virkt vinasamband á margan hátt til fjölda ára

Sem dæmi um frekari afrakstur vinabæjarsamstarfsins má nefna að árið 1993 var vígt nýtt torg í miðborg Cuxhaven sem hlaut nafnið „Hafnarfjördurplatz“ og á Óseyrarsvæðinu í Hafnarfirði fékk við sama tækifæri ný gata nafnið „Cuxhavengata“. Strax við stofnun vinabæjarsamstarfsins árið 1988 var auk þess tekin ákvörðun um að stofna til svokallaðs „Cuxhavenlundar“ við Hvaleyrarvatn og hefur sú hefð skapast að þegar sendinefndir frá Cuxhaven koma hingað í heimsóknir gróðursetji fulltrúar þeirra hér tré þegar færi gefst enda hefur lundurinn stækkað mikið og gróið upp á undanförnum árum. Auk þessa hefur samstarfið verið mikið og gefandi í æskulýðs- og íþróttamálum, mennta- og menningarmálum, á stjórnmálasviðinu og að ógleymdu viðskiptalífinu. Þá hefur Cuxhaven árlega fært Hafnfirðingum að gjöf jólatré sem sem lýst hefur upp skammdegið í bænum í áratugi, fyrst á suðurhöfninni en hin síðari ár í jólaþorpinu í miðbænum.

Hafnarfjörður á vinabæi um víða veröld og hér má fræðast um þá alla

Ábendingagátt