Ókeypis á fræðslukvöld í Bæjarbíói

Fréttir

Hvað ætlar þú að gera á þriðjudagskvöld? Ingibjörg Valgeirsdóttir frá Saga Story House og Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur leiða skemmtilegt fræðslukvöld á vegum heilsubæjarins Hafnarfjarðar í Bæjarbíó kl. 20.

Grænt og gott líf í Bæjarbíói!

Hefur útivera og ræktun áhrif á lífsstíl fólks? Af hverju ættum við að rækta í umhverfi okkar? Ingibjörg Valgeirsdóttir frá Saga Story House og Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur leiða skemmtilegt fræðslukvöld á vegum heilsubæjarins Hafnarfjarðar og svara þessum spurningum. Ingibjörg stýrir fundi og leiðir fólk í teygjur og öndun og kynnir Gurrý sem fjallar um margvíslegt gildi ræktunar út frá ýmsu sjónarhornum. Hún horfir til skjóls, fegurðar, útiveru, hreyfingar, hollustu, gleði og ánægju, kryddað með misalvarlegum dæmum úr daglega lífinu.

Sögur og gróður beint í æð

Ingibjörg Valgeirsdóttir er eigandi Saga – Story House, sem er 5 ára heilsueflandi fræðslufyrirtæki fyrir fólk og fyrirtæki, sem býður meðal annars upp á kyrrðargöngur í hafnfirskri náttúru allan ársins hring. Guðríður er garðyrkjufræðingur og líffræðingur, sem við þekkjum sem Gurrý í garðinum. Hún hefur unnið við garðyrkjutengd störf allan starfsferil sinn og frætt almenning um garðyrkju með margvíslegum hætti, í útvarpi, sjónvarpi, bókum, blaða- og tímaritsgreinum og öðrum miðlum.

Aðgangur ókeypis og öll velkomin!

Þetta fræðslukvöld og framtak Heilsubæjarins Hafnarfjarðar er liður í heilsueflingu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar. Það talar í takt við þá heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði 2016. Eitt af þremur yfirmarkmiðum heilsustefnu er að ýta undir og efla vellíðan íbúa með fjölbreyttum hætti.

  • Hvar: Bæjarbíó
  • Hvenær: Þriðjudaginn 23. apríl kl. 20

Nánar um viðburðinn hér.

Ábendingagátt