Öldutúnsskóli hlýtur foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Fréttir

Öldutúnsskóli hlýtur foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2024. Verðlaunin voru afhent í 29. sinn sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu á Hverfisgötu á miðvikudag.

Eineltisteymi Öltutúnsskóla til fyrirmyndar!

Öldutúnsskóli hlýtur foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2024. Verðlaunin voru afhent í 29. sinn sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu á Hverfisgötu á miðvikudag. Samtökin verðlaunuðu einnig Brekkuskóla á Akureyri.

Verðlaunin hlýtur Öldutúnsskólinn vegna eineltisteymis síns sem boðar foreldra á líðanfundi. Foreldrar hvers bekkjar hittast á þessum fundum ásamt umsjónarkennara og fulltrúa eineltisteymis. Á þeim ræða foreldrar saman um líðan barna sinna, félagslega stöðu, reglur sem eru í gildi á heimilum, tengsl heimilis og skóla og fleira.  Guðrún Helga Kristjánsdóttir, Helga Kristín Halldórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir og Þóra Jónsdóttir voru fulltrúar eineltisteyminskólans við afhendinguna.

 

Skólastjórinn stoltur af sínu fólki

Valdimar Víðisson, skólastjóri í Öldutúnsskóla, er ákaflega stoltur af starfsfólkinu í Öldutúnsskóla, foreldrum og nemendum. Þau í Öldutúnsskóla hafi nú í nokkur ár verið með þessa líðanafundi. „Þessir fundir eru yfirleitt í lok október og nóvember, “ lýsir hann á Facebook-síðu sinni. „Foreldrar sitja í hring alveg eins og nemendur gera á bekkjarfundum. Svo er farið hringinn og foreldrar ræða um líðan sinna barna, félagslega stöðu, bekkjarbrag, tengsl heimilis og skóla og fleira. “ Hann segir fundina skila afar góðum árangri.

„Þeir tengja foreldra betur saman og eins efla tengsl við skólann. Þátttaka foreldra er almennt mjög góð enda eru þetta fundir sem foreldrar vilja ekki missa af. Orðræða foreldra í Öldutúnsskóla er líka orðin þannig að þeir biðja um auka líðanafundi ef þeir telja þörf á,“ segir Valdimar.

Heimili og skóli segja mikilvægt að benda á það sem vel er gert

Heimili og skóli segja verkefnin Öldutúns- og Brekkuskóla stuðla að góðri og náinni samvinnu milli heimila og skóla, séu í takti við Farsældarsáttmála Heimilis og skóla ásamt því að ríma námkvæmlega við það sem Heimili og skóli standa fyrir. „Verkefnin eiga það sameiginlegt að bjóða foreldrum til samstarfs. Samtökin völdu einnig dugnaðarforka Heimilis og skóla. Verðlaunin fóru til hjónanna An Katrien Patricia M. Lecluyse og Leopold Juliaan V. Broers. „Hjónin hafa staðið sig frábærlega í því að efla foreldratengsl á leikskóla barna sinna og vinna mikilvægt starf í því að hafa samstarf Heimilis og skóla sem allra best. Þau hafa rétt út hjálparhönd til erlendra foreldra á leikskólanum og eru alltaf boðin og búin til þess að aðstoða, veita upplýsingar og stuðning ásamt því að byggja tengsl við bæði börn og foreldra. “

Ráðherra afhenti viðurkenningarnar

Heimili og skóli tóku við tilnefningum frá almenningi en sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar, líkt og venjan er og valdi verðlaunahafa. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin að þessu sinni. „Heimili og skóli óska vinningshöfum og þeim sem tilnefnd voru hjartanlega til hamingju og þakka kærlega fyrir þeirra starf í þágu skólasamfélagsins. Mikilvægt er að vekja athygli á því sem vel er gert í skólasamfélaginu en markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer innan leik-, grunn- og framhaldsskóla á Íslandi og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins. Foreldraverðlaunin minna á hverju samtakamátturinn fær áorkað, “ segir í tilkynningu samtakanna.

Hafnarfjarðarbær er stoltur af sínum skóla og tekur undir orð Heimilis og skóla. Já, innilega til hamingju!

Ábendingagátt