Opni leikvöllurinn við Spóaás sem nýr

Fréttir

Opni leikvöllurinn við Spóaás hefur sjaldan ef nokkurn tímann litið betur út. Þessi leikvöllur er meðal þeirra sem fá upplyftingu í ár. Allt að fimm vellir af 70 opnum völlum eru endurnýjaðir ár hvert.

70 opnir leikvellir í Hafnarfirði

Opni leikvöllurinn við Spóaás er glæsilegur eftir að hafa verið endurgerður nú í sumar. Nýtt undirlag er nú komið undir glæný tækin, tröppur endurunnar og misfellur í hellum lagaðar.

Timburpallur var undir leiktækjum áður. Hann var rifinn og gömlu tækin tekin fyrir ný, enda komin á tíma. Sandkassi var fjarlægður. Bíða þurfti færis til að líma nýja undirlagið á, gervigrasið, en undir því er dempun sem mildar höggið detti börnin.

Allt að fimm vellir endurnýjaðir ár hvert

70 opnir leikvellir eru í Hafnarfjarðarbæ. Starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar fara yfir þá árlega, meta ástandið og endurnýja með aðstoð verktaka. Ár hvert er að meðaltali 3-5 leikvellir endurgerðir og  aðrir lagaðir. Löggild endurskoðun á þeim öllum er gerð og lagað það sem aflaga hefur farið. Þá eru leikskólalóðir og grunnskólalóðir einnig teknar út.

Næsti opni leikvöllur sem tekur stakkaskiptum er milli Einihlíðar og Bjarmahlíðar; völlur sem komin er á tíma. Búið er að kaupa ný tæki og byrjað á honum í næstu viku.

Þeir opnu við Einihlíð, Hörðuvelli og Álfaberg næstir

Fleiri opnir leikvellir verða sem nýir eftir sumarið. Þegar verki lýkur við Einihlíð er stefnt á að endurgera opna leikvöllinn við Hörðuvelli. Þar verður perlumöl undir leiktækjum fjarlægð fyrir gervigras. Þá er lítill opinn leikvöllur við Álfaberg á dagskrá í haust.

Við hvetjum íbúa til að kynna sér fjölbreytta leik- og sparkvelli á kortavef bæjarins. Það getur verið góð skemmtun fyrir fjölskylduna alla að prófa mismunandi velli og það milli hverfa.

Já, þeir bíða eftir þér opnu leikvellirnir!

Ábendingagátt