Skráðu þig í opna viðtalstíma um fjölmenningu 

Fréttir

Viltu spjalla við verkefnastjóra fjölmenningar hjá Hafnarfjarðarbæ? Koma hugmyndum þínum á framfæri, fá ráð eða ræða málin? Opnir viðtalstímar í boði.

Fjölmenningarsamfélagið Hafnarfjörður

Viltu spjalla við verkefnastjóra fjölmenningar hjá Hafnarfjarðarbæ? Koma hugmyndum þínum á framfæri, fá ráð eða ræða málin? Nú gefst tækifæri. Bóka má hálftíma spjall á Teams, en einnig hitta verkefnastjórann í persónu alla miðvikudaga milli kl. 9.30-11.30. 

„Viðtalstímarnir eru opnir fyrir alla íbúa Hafnarfjarðar. Mig langar að hitta fólk sem vill ræða málefni bæjarins, málefni innflytjenda og fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í viðburðum eða verkefnum sem eflir búsetu fólks af erlendum rótum,“ segir Hildur Ýr Jónsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar í Hafnarfjarðarbæ. 

Opnu fundirnir eru þeir fyrstu um fjölmenningu í Hafnarfirði, enda Hildur fyrsti verkefnastjóri fjölmenningar bæjarins í fullu starfi og ryður nú brautina fyrir öflugri fjölmenningarbæ. 

Hlustar eftir tækifærum

Hildur segir mikilvægt að bæði hún og aðrir íbúar tengist samfélaginu og það sé markmið samtalsins. „Mig langar að heyra hvernig bærinn getur komið enn betur til móts við íbúa.“ 

Hún segir þetta tækifæri til að fá að heyra milliliðalaust hvað megi gera betur og hvað henti hverju samfélagi fyrir sig. „Svo langar mig að hlusta,“ segir hún.  

„Hlusta og sjá hvort í samfélaginu séu tækifæri sem bærinn er að missa af. Það skiptir máli að opna samtalið, tryggja að það sé ekki eingöngu hér innanhúss og einhliða heldur einnig úti í samfélaginu.“ 

Eflir lýðræðisþátttöku fyrir kosningar

Hildur hefur starfað sem verkefnastjóri fjölmenningar í Hafnarfirði frá miðju ári 2025. Hún starfar þvert á svið, stofnanir, deildir og verkefni sveitarfélagsins. Hlutverk hennar er að efla leiðir og marka nýjar leiðir við móttöku á fólki af erlendum uppruna og hvetja til aukinnar þátttöku þeirra í samfélaginu. Sveitarstjórnarkosningar eru í nánd og undirbúningur í fullum gangi. 

„Verkefnið Lýðræðisþátttaka innflytjenda er komið á flug. Við höfum lagt upp vinnustofuröð og fræðslu í Nýsköpunarsetri Hafnarfjarðar varðandi það hvernig lýðræði á Íslandi virkar til að efla þátttöku innflytjenda í sveitarstjórnarkosningunum nú í maí.“ Þátttaka er ókeypis og eru öll velkomin. 

Lýðræðisþátttaka íbúa af erlendum uppruna: 

  • Laugardagur 7. febrúar frá kl. 10-17 
  • þriðjudagur og miðvikudagur 10. og 11. febrúar frá kl. 19:30 til 21:30 
  • sunnudagur 15. febrúar frá kl. 10-17 
  • þriðjudagur og miðvikudagur 10. og 11. mars frá kl. 19:30-21:30 
  • sunnudagur 22. mars 13-16 – skiltagerð 

Verkefnið er stutt af félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og innleitt í samstarfi Hafnarfjarðarbæ. 

Fjölmenningarþing í vor

Hildur undirbýr einnig Fjölmenningarþing haldið af Hafnarfjarðarbæ. „Það verður á vormánuðum og er stór vettvangur til að eiga samtalið og tryggja að öll geti komið að borðinu.“ 

  • Hildur Ýr er staðsett á skrifstofu þjónustu- og þróunarsviðs í Ráðhúsi Hafnarfjarðar. Netfang Hildar er: hilduryr@hafnarfjordur.is 
Ábendingagátt