Örstyrkir til menningar og lista á aðventunni

Fréttir

Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir umsóknum um örstyrki til menningarmála á aðventunni. Óskað er eftir hvers konar atriðum, upplifun og skemmtun sem auðgað geta jólastemningu í jólabænum Hafnarfirði. 

Viltu taka þátt í að auðga jólaandann á aðventunni? 

Hafnarfjarðarbær auglýsir eftir umsóknum um örstyrki til menningarmála á aðventunni. Til þess að styðja við hafnfirskt listafólk og hafnfirska menningu verður hluta af fjármagni Jólaþorpsins í Hafnarfirði úthlutað til ýmissa verkefna sem fara fram á aðventunni 2020. Óskað er eftir hvers konar atriðum, upplifun og skemmtun sem auðgað geta jólastemningu í jólabænum á aðventunni. 


Leitað er eftir tilbúnum verkum eða næstum-því-tilbúnum
Jólaþorpið er bæjarviðburður sem kjarnar jólamenninguna í Hafnarfirði og er heimsókn í jólaþorpið, söfn, verslanir, kaffihús og veitingastaði mikilvægur og ómissandi hluti af jólaundirbúningi margra.  Á ári hverju á aðventunni hverju kemur fram, í jólaþorpinu og víðar í Hafnarfirði, stór og fjölbreyttur hópur listafólks með hvers kyns atriði. Í ljósi þess að aðstæður í samfélaginu bjóða ekki upp á slíka skemmtun þetta árið þá hefur verið ákveðið að óska eftir skapandi og skemmtilegum einstaklingum og hópum sem búa yfir hugmyndum að pop-up viðburðum, sýningum og streymi. Atriðum sem hvetja ekki til hópamyndunar og eru ekki auglýst sérstaklega en til þess fallin efla menningu og glæða mannlífið á aðventunni. Leitað er eftir tilbúnum verkum eða næstum-því-tilbúnum verkum, eitthvað fyrir börn eða eitthvað fyrir fullorðna. Einstaklingar geta sótt um um fjármagn til verkefna að hámarki 100.000.- kr. 

Umsóknarfrestur til og með 6. desember 2020

Senda skal umsóknir á netfangið: jolathorp@hafnarfjordur.is undir fyrirsögninni: Umsókn um örstyrk fyrir klukkan 23:59 sunnudaginn 6. desember. Styrkumsóknir verða afgreiddar hratt og örugglega og er miðað við að úthlutun verði lokið 7. desember. 

Upplýsingar í umsókn: Í umsókn í tölvupósti þarf að koma fram nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, símanúmer, netfang auk upplýsinga um tengilið, upplýsingar um atriði sem sótt er um styrk fyrir og einföld kostnaðaráætlun. Við úthlutun verður tekið mið af reglum menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðar um styrki til menningarstarfsemi.

Ábendingagátt