Óstöðvandi hláturskast á Tómri hamingju

Fréttir

Tóm hamingja, leikrit Gaflaraleikhússins hefur verið frumsýnt í Borgarleikhúsinu. „Við bíðum spennt eftir því að koma aftur heim í Hafnarfjörðinn,“ segir Björk Jakobsdóttir, leikhússtjóri Gaflaraleikhússins.

Gaflaraleikhúsið frumsýnir nýtt verk

Tóm hamingja, leikrit Gaflaraleikhússins hefur verið frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Leikritið er glæný gleðisprengja sem sýnd er á tveimur sviðum. „Það gekk mjög vel,“ segir Björk Jakobsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, um frumsýningarhelgina. „Við erum alsæl og ég stolt af mínu fólki.“

Leikrit um óborganlega vináttu

Leikritið fjallar um vinahóp sem heldur partý upp í bústað um áramót til að bjarga Hjálmari vini sínum sem virðist alveg vera að missa af hamingjulestinni. Í lýsingu á leikritinu er sagt frá því að Hjálmar sé óvirkur á samfélagsmiðlum og hættur að drekka sem sé klárlega merki um alvarlegt þunglyndi. Misskilningur, meðvirkni, ofskynjunarvöfflur, framhjáhald, kind og fleira flæki hins vegar bústaðarferðina all verulega.

Gaflaraleikhúsið er þekkt fyrir stórskemmtilegar sýningar og áhorfendur verða ekki sviknir af þessu bráðfyndna verki sem höfðar til fólks frá fermingu og fram á grafarbakkann, eins og því er lýst. Sýningin er styrkt af Sviðslistasjóði og Hafnarfjarðabæ.

 

Frábær frumsýningarhelgi

„Það var mikið hlegið og verkið ferskt og öðruvísi. Svo er þetta íslenskur samtímafarsi,“ segir Björk. „Ég er svo stolt af Gaflaraleikhúsinu og þessu unga sviðslistarfólki sem við höfum alið upp og veitt vettvang. Það er svo gaman að koma með eigin sýningar.“

Björk segir leikhúsáhorfendur eldast hratt. „Það er því verðugt verkefni að finna nýjan tón og ná nýjum kynslóðum inn í leikhúsið. Við höfum stefnt að þessu lengi í Gaflaraleikhúsinu og speglum samtína ungs fólks,“ segir hún og að þótt verkið höfði til yngra fólks skemmti það eldra sér líka.

„Mér finnst frábært að Hafnarfjörður vinni að því að koma sterkur inn með unga og upprennandi höfunda,“ segir hún en þeir Óli Gunnar Gunnarsson, Ásgrímur Gunnarsson og Arnór Björnsson semja leikritið.

„Ég er hreinlega montin og stolt af nýrri kynslóð sviðslistarfólks. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa vettvang til að skapa og spegla og gefa okkur tækifæri á öðru en Netflix og Youtube.“

Gaflaraleikhúsið hafnfirskt

Björk segir mikilvægt núna þegar þau hafi ekki leikhús í Hafnarfirði að missa ekki niður nafn Gaflaraleikhússins. „Borgarleikhúsið opnaði faðminn og tók okkur í fóstur. Svo erum við búin að vera í samtali við bæinn. Við erum ennþá hafnfirskt leikhús og buðum núna 10. bekk að koma í leikhús til okkar,“ segir hún.

„Við bíðum spennt eftir því að koma aftur heim í Hafnarfjörðinn.“

Skemmtun með unglingunum

Björk segir leikritið Tóm hamingja stórkostlegt fyrir foreldra að fara með unglingana sína á. „En ekki yngri en 12 ára,“ segir Björk. „Þá gæti þurft að útskýra ýmsa óþægilega hluti. Þetta er ekki barnasýning. Þetta er fullorðinssýning. Príma jólagjöf fyrir unglingana sem maður veit aldrei hvað maður á að gefa,“ segir hún og hlær.

Já, innilega til hamingju með þetta frábæra hafnvirska hugvit. Það er tóm hamingja að sjá þetta leikrit!

Ábendingagátt