Pétur og úlfurinn slógu í gegn

Fréttir

Nemendur í 2. bekk í grunnskólunum Hafnarfjarðar sóttu í morgun leikbrúðusýningu gerða eftir barnatónverkinu Pétur og úlfurinn eftir rússneska tónskáldið Sergei Prokofiev. Boð í brúðuleikhús er hluti af Bóka- og bíóhátíð barnanna.

Nemendur í 2. bekk í grunnskólunum Hafnarfjarðar sóttu í morgun leikbrúðusýningu gerða eftir barnatónverkinu Pétur og úlfurinn eftir
rússneska tónskáldið Sergei Prokofiev. Tilgangur verksins er að kynna ungum áhorfendum klassíska
tónlist og ólík hljóðfæri sinfóníuhljómsveitar en það er Bernd Ogrodnik sem
ljær verkinu líf með handunnum trébrúðum sínum. Boð í brúðuleikhús er hluti af Bóka- og bíóhátíð barnanna.

Prokofiev samdi tónverkið árið 1936, eins konar sinfónískt ævintýri fyrir börn sem er flutt í sögubúningi um leið og það er leikið á hin ýmsu hljóðfæri sinfóníuhljómsveitar. Tvær sýningar fóru fram í morgun í Bæjarbíói í Hafnarfirði og náðu þær vel til barnanna sem lögðu vel við hlustir og tóku
virkan þátt. Bernd er einstaklega hæfileikaríkur og nær athygli barnanna með látbragði sínu samhliða því að segja söguna og láta
brúðurnar styðja við hana. Allir skemmtu sér vel og höfðu gaman af því að kynnast
skemmtilegri brúðuuppfærslu sem myndgerði vel þá tónlist sem vel er þekkt við
söguna af Pétri og úlfinum.

Boð í brúðuleikhús er hluti af Bóka- og bíóhátíð barnanna sem stendur yfir þessa vikuna í Hafnarfirði. Tilgangur hátíðar er að efla áhuga barna á lestri og læsi og styður hátíðin við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hafa verið síðustu misseri.

Ábendingagátt