Pétur Thomsen valinn myndlistamaður ársins 

Fréttir

Pétur Thomsen hefur verið valinn Myndlistamaður ársins fyrir sýninguna Landnám sem sett var upp í Hafnarborg á vetrinum sem er að líða. Pétur fékk titilinn á Íslensku myndlistarverðlaununum 2025 nú rétt fyrir helgi.

Gjöful sýning í Hafnarborg

Pétur Thomsen hefur verið valinn Myndlistamaður ársins fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg á vetrinum sem er að líða. Viðurkenningin var afhent á Íslensku myndlistarverðlaununum 2025 nú um helgina.

Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir valið heiður. „Fyrst og fremst fyrir hann en líka mikil viðurkenning fyrir Hafnarborg.“ Á vef Hafnarborgar óskar starfsfólk Pétri til hamingju. „… með hugheilum þökkum fyrir gott og gjöfult samstarf. Einnig færum við myndlistarráði, dómnefnd og öllum þeim sem stóðu að Íslensku myndlistarverðlaununum okkar bestu þakkir,“ segir þar.

 

Hólmar Hólm, verkefnastjóri kynningarmála og útgáfu hjá Hafnarborg, Pétur Thomsen myndlistamaðurinn og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar við afhendinguna.

Samspil sambýlis manns og náttúru

Greint er frá því í texta dómnefndar að samband mannfólks við náttúruna hafi lengi verið megininntakið í ljósmyndaverkum Péturs, þar sem finna má vitnisburð um ágang mannsins á umhverfi sitt.

„Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á,“ er þar lýst.

„Í aðalsal Hafnarborgar voru sýndar innrammaðar ljósmyndir án glers sem minntu á málverk á striga. Sumar voru í yfirstærð en einnig mátti finna verk sem voru samsett úr mörgum ljósmyndum og mynduðu eina heild.“

Kallar á nærveru áhorfandans

Segir í vitnisburðinum að framsetningin kalli á nærveru áhorfandans og íhugun með listamanninum um þann boðskap sem hann vilji færa fram: áminningu um áhrif mannsins á umhverfi sitt sem hefur leitt af sér hlýnun jarðar og náttúruvá. „Sýningin í heild orkar sem eins konar ákall, svo óhjákvæmilegt er að spegla áhrif eigin tilvistar og tilveru á lifandi heim.“

Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. „Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.“

Já, innilega til hamingju Pétur.

Pétur Thomsen (f. 1973) lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Áður stundaði hann nám í frönsku, listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry í Montpellier og listljósmyndun við École supérieure des métiers artistiques í sömu borg. Pétur hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar.

Ábendingagátt