Ráðhús til framtíðar í hjarta Hafnarfjarðar

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur fest kaup á húsnæði Íslandsbanka að Strandgötu 8-10 í Hafnarfirði. Kaupverðið er 350 milljónir króna og hefur Hafnarfjarðarbær með kaupunum tryggt stjórnsýslu sveitarfélagsins húsnæði til framtíðar í hjarta Hafnarfjarðar.

 

Hafnarfjarðarbær kaupir Strandgötu 8-10

Hafnarfjarðarbær hefur fest kaup á húsnæði Íslandsbanka að Strandgötu 8-10 í Hafnarfirði. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs Íslandsbanka skrifuðu undir samning þess efnis í dag. Húsið hýsir ráðhús Hafnarfjarðar og útibú Íslandsbanka og kemur bankinn kemur til með að leigja af bænum hluta rýmisins á jarðhæð hússins undir starfsemi sína. Kaupverðið er 350 milljónir króna og hefur Hafnarfjarðarbær með kaupunum tryggt stjórnsýslu sveitarfélagsins húsnæði til framtíðar í hjarta Hafnarfjarðar.

„Framtíðarhúsnæði og húsnæðisþörf fyrir Ráðhús Hafnarfjarðar og stjórnsýslu bæjarins hefur lengi verið til umfjöllunar og greiningar innan sveitarfélagsins. Það er því mikið fagnaðarefni að ákvörðun um framtíðarhúsnæði fyrir stjórnsýsluna hafi verið tekin. Margir hafa beðið eftir ákvörðuninni og nú getum við farið af stað með þá hönnun og breytingar á húsnæðinu sem starfsemi okkar og starfsumhverfi kallar eftir. Áhersla verður fyrst lögð á hluta af jarðhæðinni með stækkun á þjónustuveri og fjölgun fundarýma,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Formleg afhending 1. september 2023

Strandgata 8-10 hýsir í dag hvorutveggja Ráðhús Hafnarfjarðar og útibú Íslandsbanka. Um er að ræða alla húseignina, sem er 1521,8 fermetra skrifstofuhúsnæði og banki ásamt hlutdeild í leigulóð. Eignin er fimm hæða hús, kjallari og fjórar hæðir. Hafnarfjarðarbær hefur leigt stóran hluta eignarinnar á 2. -4. hæð um árabil undir starfsemi sína. Formleg afhending á fasteign fer fram föstudaginn 1. september 2023. Samningur Íslandsbanka og Hafnarfjarðarbæjar kveðjur jafnframt á um að níu mánuðum eftir undirritun fari einnig af stað söluferli Linnetsstígs 3 sem bæjarfélagið er með á leigu.

Ábendingagátt