Fræjum dreift inn á öll heimili í Hafnarfirði

Fréttir

Heilsubærinn Hafnarfjörður færir öllum heimilum í Hafnarfirði nú sumargjöf til marks um grósku, vöxt og vellíðan. Gjöfin á að fá íbúa í Hafnarfirði til að staldra við, draga andann létt, lifa í núinu og huga að mikilvægi eigin ræktunar í öllum skilningi. Um er að ræða fræpakka með fimm fræjum að kryddjurtum til eigin ræktunar. Heimaræktun er gefandi verkefni fyrir alla fjölskylduna. 

Heimaræktun er gefandi verkefni fyrir alla fjölskylduna

Heilsubærinn Hafnarfjörður færir öllum heimilum í Hafnarfirði nú sumargjöf til marks um grósku, vöxt og vellíðan. Gjöfin á að fá íbúa í Hafnarfirði til að staldra við, draga andann létt, lifa í núinu og huga að mikilvægi eigin ræktunar í öllum skilningi. Um er að ræða fræpakka með fimm fræjum að kryddjurtum til eigin ræktunar. Heimaræktun er gefandi verkefni fyrir alla fjölskylduna. Fyrir fjórum árum var Hafnfirðingum sendur heilsueflandi spilastokkur sem vakti mikla hrifningu. Fræpakkinn, sem mun berast m.a. inn á öll hafnfirsk heimili sem heimila fjölpóst, hefur að geyma blandaðar kryddjurtir og er áætlaður spírunartími 10-20 dagar. Til stendur einnig að færa frístundaheimilum og elstu deildum leikskólanna fræ til ræktunar.   

Hreyfum okkur, borðum hollt, ræktum okkur sjálf og smá jurtir í leiðinni!  

IMG_7372

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar heimsótti elstu nemendur í heilsueflandi leikskólanum Smáralundi og færði þeim fræ til ræktunar. 

IMG_7428Þessir glaðbeittu nemendur eiga sannarlega framtíðina fyrir sér í ræktun á hvers kyns góðgæti. 

IMG_7419

Hópurinn fylgdist áhugasamur með leiðbeiningum, ráðgjöf og hvatningu Rósu til ræktunar heima og í leikskólanum. 

Fjölskyldugarðar Hafnarfjarðar – viltu taka heimaræktunina skrefinu lengra?

Fjölskyldugarðar Hafnarfjarðar eru opnir öllum bæjarbúum og um að ræða frábært tækifæri fyrir fjölskyldur og einstaklinga í Hafnarfirði til að rækta sitt eigið grænmeti og hugsa um í sumar. Fjölskyldugarðarnir verða opnir á Víðistöðum og á Öldugötu. Kostnaður fyrir einn garð er kr. 1.541.- og fyrir tvo garða kr. 2.568.- Garðarnir afhendast plægðir og hefst úthlutun undir lok maí. Grænmeti eða annað efni til ræktunar er ekki innifalið í verði en aðgengi að vatni og minniháttar verkfærum til staðar. Skráning stendur yfir og fer fram hér – velja þarf sveitarfélag og staðsetningu á fjölskyldugarði sem óskað er eftir (fjölskyldugarður Öldutún/fjölskyldugarður Víðistaðir)

Ég vil sækja um garð takk!

Ævintýrabærinn Hafnarfjörður

Eitt af meginmarkmiðum heilsubæjarins Hafnarfjarðar er að hvetja bæjarbúa til að hlúa vel að andlegri og líkamlegri vellíðan og heilsu. Þannig hefur heilsubærinn brugðið á það ráð að læða reglulega að íbúum heilsueflandi hugmyndum og upplýsingum um þá möguleika sem leynast í upplandi Hafnarfjarðar og í þeim útivistarperlum og -svæðum sem finna má víða um bæinn.


Metnaðarfull heilsustefna fyrir heilsubæinn Hafnarfjörð

Hafnarfjarðarbær gekk til samninga við Embætti landlæknis í mars 2015 um þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag og hefur sveitarfélagið í samstarfi við íbúa, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila mótað heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar og lagt fram aðgerðaáætlun sem talar beint saman við stefnuna. Í heilsustefnu Hafnarfjarðar er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Heilsustefna Hafnarfjarðarbæjar

Ábendingagátt