Rammaskipulag Hrauns Vesturs samþykkt í Skipulags og byggingaráði

Fréttir

Hraun-Vestur er ekki bara ný glæsileg framtíðarsýn heldur verður hverfið nýtt glæsilegt andlit Hafnarfjarðar 

Á fundi Skipulags- og byggingarráða í morgun voru tillögur
að rammaskipulagi reits sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og
Flatahrauni, sem almennt er kallaður Hraun vestur. Landnotkun og uppbygging
reitsins tekur mið af verslun, þjónustu og íbúðarsvæði. Lögð fram tillaga
Teiknistofu Arkitekta og Krads arkitekta sem hefur verið í kynningu síðan í
vetur.  Vegna mikillar þjónustu sem
verður í boði í hverfinu hefur hverfið fengið nafnið fimm mínútna hverfið en
þar er allt hugsað út frá því að ekki taki lengri tíma en fimm mínútur að
komast í alla helstu þjónustu sbr. leikskóla, skóla, verslanir og
almenningssamgöngur. Skipulags- og byggingaráð vísar málinu til áframhaldandi
úrvinnslu og kynningu í bæjarstjórn.

Unnið hefur verið að hugmyndum um Hraun-Vestur allt þetta
kjörtímabil og er það í samræmi við áralangar umræður um nýja sýn á svokallaða
framhlið Hafnarfjarðar. Hraun-Vestur er ekki bara ný glæsileg framtíðarsýn
heldur verður hverfið nýtt glæsilegt andlit Hafnarfjarðar sem mun gera okkur
öll stolt af því að bjóða gesti og nýja íbúa velkomna.

 

Eins og áður segir er stefnt að því að Hraun-Vestur verði
svokallað „fimm mínútna hverfi“ en engu að síður verða staðsetningar helstu
grunnþjónustu, eins og skóla, leikskóla, bílastæðahúsa, bílastæðakjallara og
helstu tenginga við almenningssamgöngur með einnar mínútna millibili.
Breiðgötur munu liggja báðum megin við hverfið, Fjarðarhraun og
Reykjavíkurvegur, og fyrirhuguð Borgarlína fer líklega um Reykjavíkurveg og
tengir því hverfið vel höfuðborgarsvæðinu. Borgargötur mynda helstu
þvertengingar í gegnum hverfið og við þær er gert ráð fyrir líflegri verslun.
Þá munu almenningssamgöngur fara um borgargöturnar og hjólreiðastígar liggja
við þær. Bílastæði verða í bílastæðahúsum, bílakjöllurum og göturýmum en
útfærslur á götumynd verða að norrænni fyrirmynd.

 

Gildi umhverfisverndar og vitund um gæði og betri nýtingu
fellur vel að lífsstíl fólks á öllum aldri. Það er áskorun en um leið frábært
tækifæri að geta mætt þeim gildum með nýju hverfi og um leið nýju andliti
Hafnarfjarðar. Við teljum að Hraun-Vestur sé einmitt sú borgarmynd sem fólk
aðhyllist í auknum mæli og uppfyllir óskir um nærumhverfið. Þannig getur
Hafnarfjarðarbær bæði státað af því að bjóða frábæra möguleika fyrir þá sem
vilja hefðbundið hverfafyrirkomulag fyrir íbúðarhús, parhús, ráðhús og fjölbýli
þar sem áherslan er á náttúrufegurð og kyrrð en líka þéttari byggð í hverfi sem
er nokkurs konar „smáborg í borg“.

Hægt er að skoða samþykkt rammaskipulag hér

Ábendingagátt