Rán opnar hafnfirskan álfaheim upp í nýrri sýningu í The Shed

Fréttir

Rán Sigurjónsdóttir opnar sýningu í The Shed á fimmtudag. Hún sér heiminn með augum álfa og vinnur verkin á sýningunni úr þurrkuðum hafnfirskum blómum og býflugnavaxi. Öll velkomin á opnunin 4. september milli 18-20.

Sjáðu heiminn með augum álfa!

Hvernig skynja álfarnir í Hafnarfirði heiminn? Rán Sigurjónsdóttir gefur okkur tækifæri til að skyggnast inn í heiminn, eins og hún ímyndar sér að álfarnir í Hafnarfirði skynji hann, í nýrri sýningu í The Shed. Það er verslun og samkomurými sem Anthony Bacigalupo og Ýr Káradóttir reka af ástríðu fyrir listum og menningarlífi við Suðurgötu. Opnun sýningarinnar verður 4. september milli kl. 18-20.

Þróaðist í Skapandi sumarstörfum

Rán tók þátt í Skapandi Sumarstörfum í sumar „Þetta var æðisleg reynsla rétt eins og í fyrra. Þá vann ég sýninguna um sædýrasafnið. Já, þetta starf er mjög gefandi og gott.“

Verkin í The Shed vann hún í stúdíói í Þýskalandi í ágúst, í frábærri aðstöðu stjúpföður síns, býflugnabóndans og handboltakempunnar Alfreðs Gíslasonar. Hún dóttir Hrundar Gunnsteinsdóttur, og hjá þeim fann hún leið sína í listinni nú í ágúst.

Fann sína leið í Þýskalandi

„Já, ég fór í aðra átt eftir sumarstarfið. Vann þar ég olíumálverk en breytti um stíl og nýti nú þurrkuð hafnfirsk blóm og býflugnavaxið. Þessi skemmtilega tilraun heppnaðist. Mér finnst vaxið gera verkin mjög djúsí. Það er svo skemmtilegt að sjá útkomuna og vinna með náttúruleg efni,“ segir hún.

„Mér finnst ég hafa að uppgötvað eitthvað nýtt. Ég hef aldrei séð neinn blanda þessu saman og get vel séð fyrir mér að nota þessa aðferð áfram í framtíðinni.“

Sagt er frá því í lýsingu sýningarinnar að býflugnavaxið myndi gruggugt yfirborð – eins konar dularfulla himnu milli heima. Með verkunum leitist Rán við að opna glufu inn í annan veruleika og bjóða áhorfandanum að skyggnast inn í heim sem sé okkur flestum hulinn. En hvernig fékk hún þessa hugmynd?

Ólst upp við Hellisgerði

„Ég ólst upp í götunni fyrir ofan Hellisgerði. Þegar ég ákvað að sækja um Skapandi sumarstarf vildi ég gera eitthvað hafnfirskt og álfarnir komu upp í hugann. Ég gat ekki ímyndað mér að mála þá sjálfa og fékk því hugmyndina að mála landslagið eins og ég ímynda mér að álfarnir sjái það.“

Sýningin stendur til 11. september og verður opin alla virka daga frá kl. 16–18 og um helgina 6.–7. september frá kl. 13–15. En hvað svo? „Jú, ég er að hefja þriðja árið í Listaháskólanum,“ segir Rán sem stefnir á að útskrifast með BA-gráða í grafískri hönnun í vor.

Innilega til lukku með frábær verk.

  • Aðgangur er ókeypis og öll eru hjartanlega velkomin.
  • The Shed er staðsett í bakgarði, með bílastæði við Suðurgötu.
  • Endilega komdu og gakktu inn í framandi heim.
Ábendingagátt