Ratleikur bíður þín í Jólaþorpinu

Fréttir Jólabærinn

Þrettán jólasveinar, Grýla, Leppalúði og kötturinn sem prýtt hafa Strandgötu Hafnarfjarðar í aðdraganda jóla hafa fengið nýjan tilgang. Hægt er að hlaupa á milli þeirra, safna vísbendingum og taka þannig þátt í skemmtilegum jólaratleik í anda Ratleiks Hafnarfjarðar.

 Ratleikur í Jólaþorpinu

Þrettán jólasveinar, Grýla, Leppalúði og kötturinn sem prýtt hafa Strandgötu Hafnarfjarðar í aðdraganda jóla hafa fengið nýjan tilgang. Hægt er að hlaupa á milli þeirra, safna vísbendingum og taka þannig þátt í skemmtilegum jólaratleik í anda Ratleiks Hafnarfjarðar.

„Það er frábært,“ segir Jean Antoine Posocco sem teiknaði jólasveinanna sem hafa verið í Jólaþorpinu frá 2014. Hann gerði fyrstu skissurnar af sveinunum árið 2002 og komu þeir út í nyndasögubók árið 2005. Jólasveinarnir hans Jean Antoine eru órjúfanlegur partur af Jólaþorpinu ár hvert og það verður gaman að sjá börnin safna vísbendingunum.

„Eins og öðrum sem flytja til landsins fannst mér skrítið að jólasveinarnir hér væru 13 og sem teiknari langaði mig að skapa skemmtileg hugarheim með þeim,“ segir hann. Rætur Jean eru ítalskar en hann kemur frá Chambéry í Ölpum Frakklands og hefur búið á Íslandi í rúm fjörutíu ár, eignast fjölskyldu og starfað sem teiknari alla tíð.

Ratleikurinn er hannaður af Hönnunarhúsinu og Guðna Gíslasyni, ritstjóra Fjarðarfrétta, fyrir heilsubæinn Hafnarfjörð. Eins og fólk þekkir hafa ratleikir hans slegið í gegn hér í Hafnarfirði í gegnum árin.

  • Og hvernig spilum við leikinn? Jú, hjá hverjum staur er spjald með nafni jólasveinsins og QR kóði. Hann á að skanna inn til að finna réttan bókstaf sem skrifa á niður og safna saman. Stafirnir mynda svo stutta setningu sem skila þarf inn rafrænt. Hjálparblað má fá á Bókasafninu, Byggðasafninu, Hafnarborg og í gróðurhúsunum á Thorsplani eða sækja hér. Hægt verður að taka þátt út 22. desember. Veitt verða þátttökuverðlaun á Þorláksmessu. Sjá nánar hér.
Ábendingagátt