Regnbogaveggur í miðbænum

Fréttir

Hafnarfjarðarbær fagnar fjölbreytileikanum og hefur málað vegg hússins við Strandgötu 4 í litum baráttufána hinsegin fólks sem minnisvarða um brautryðjendastarf Hafnarfjarðar í málefnum hinsegin fólks og áminningu um áframhaldandi baráttu fyrir fordómalausu samfélagi og jöfnum tækifærum fyrir alla.

Minnisvarði um brautryðjendastarf Hafnarfjarðar í málefnum hinsegin fólks.  

Hafnarfjarðarbær fagnar fjölbreytileikanum og hefur málað vegg hússins við Strandgötu 4 í litum baráttufána hinsegin fólks sem minnisvarða um brautryðjendastarf Hafnarfjarðar í málefnum hinsegin fólks og áminningu um áframhaldandi baráttu fyrir fordómalausu samfélagi og jöfnum tækifærum fyrir alla. Verkefnið er unnið í samstarfi við Bersann – félag ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði.

Hafnarfjarðarbær hefur tekið virkan þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga síðustu ár og mun í ár ganga undir slagorðinu: Mannkynið er okkar kynþáttur. Ást er okkar trú. Í kringum þrjátíu ungmenni á aldrinum 15 – 22 ára leiða framlag bæjarins til göngunnar og það undir stjórn Jafningjafræðslunnar Competo ásamt listahópi og skapandi sumarstörfum hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar. „Hafnarfjarðarbær ruddi veginn í fyrra með samningi við Samtökin ´78 um fræðslustarf sem hefur það að markmiði að auka þjónustu við nemendur og starfsfólk grunnskóla með fræðslu um málefni hinsegin fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda. Fræðslan hefst í grunnskólum Hafnarfjarðar nú á haustmánuðum. Í Gleðigöngunni í ár ætlum við að fagna sýndum árangri og vekja fólk til umhugsunar með innihaldsríku slagorði sem færir boðskap sem allir geta tekið til sín og tileinkað sér“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.   

Mannkynið er okkar kynþáttur. Ást er okkar trú.

Uppruni slagorðs er erlendur en þýðing var í höndum þeirra ungmenna sem sjá um undirbúning á framlagi bæjarins. Slagorðið þykir lýsandi og viðeigandi á þessum degi sem og alla aðra daga og er mjög í anda stefnu bæjarins í fjölskyldu- og jafnréttismálum. Slagorðið færir fallegan boðskap, fagnar fjölbreytileikanum og vekur á sama tíma fólk til umhugsunar. Búist er við að hátt í 30 ungmenni á aldrinum 15 – 22 ára leiði framlag Hafnarfjarðarbæjar til gleðigöngunnar í ár. Hluti þeirra mun troða upp með lifandi tónlist á palli. Samhliða er skorað á alla starfsmenn, íbúa Hafnarfjarðarbæjar, fjölskyldur þeirra og aðra áhugasama að taka þátt í gleðinni með því að ganga til liðs við hópinn, mæta í einhverju gulu eða fjólubláu og ganga á eftir bíl bæjarins.

Ábendingagátt